Viðskipti innlent

Snekkjuverð snarlækkar - Kaupþing lánaði 65 milljarða

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Verð á snekkjum hefur snarlækkað síðan fjármálkreppan skall á af fullum þunga s.l. haust. Hefur verðið fallið um 30% á einstaka glæsisnekkjum á einu ári og búast sérfræðingar við að verðið lækki enn frekar. Kaupþing lánaði rúma 65 milljarða króna til snekkjukaupa.

„Ef þú átt reiðufé, hefur aldrei verið betri tími til að festa kaup á snekkju," er haft eftir snekkjumiðlara en breska fjármálablaðið Financial Times greinir frá þessu.

Krísan hefur komið illa niður á fjárfestingabönkum og þeim sem græddu á tá og fingri þegar verðið var sem hæst. Meðal þeirra sem hafa skaðast verulega eru fjárfestingabankar sem lánað hafa fé til slíkra snekkjukaupa. Einn af þeim er hinn gjaldþrota íslenski banki Kaupþing, segir í fréttinni.

Eins og kom fram á Vísi þann 24. Nóvember s.l. lánaði Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings í Bretlandi, 310 miljónir punda eða rúmlega 65 milljarða króna til kaupa á snekkjum og einkaþotum fyrir efnaða Lundúnarbúa.

S&F var með „einkalánabók“ upp á 1,3 milljarða punda og taldi hún 400 viðskiptavini. Af þessari upphæð fóru 219 milljónir punda í að fjármagna snekkjukaup og 90 milljónir punda í að fjármagna einkaþotur. Auk þess kemur fram að 425 milljónir punda voru lánuð til fasteignakaupa.

Þá hefur komið fram að fyrirtækjalánabók S&F var nokkuð minni að vöxtum eða upp á 824 milljónir punda. Þar af voru 16 milljónir punda lánuð til að fjármagna leikmannakaup í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×