Innlent

Var eitt sinn híbýli róna

„Þetta er nú sennilega það hús í Reykjavík sem er frægast allra húsa," segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sem fylgdist með slökkvistarfinu.

„Það var franskur konsúll, Brillouin, sem hafði hér aðsetur, sem reisti það upphaflega fyrir nákvæmlega hundrað árum og það var kallað konsúlshús þá. Hann fór fljótlega og 1914 keypti það Einar Benediktsson skáld og bjó hér í nokkur ár. Síðan voru ýmsir eigendur, Títanfélagið átti það um skeið. Síðan Matthías Einarsson læknir, og Louisa Matthíasdóttir listmálari ólst hér upp," segir Guðjón.

Rétt fyrir seinni heimsstyrjöld keyptu Bretar húsið og gerðu að sendiráðsbústað.

„Þá komu hingað mjög margir merkir menn, Churchill og Marlene Dietrich. Það er talið að hún hafi sungið í húsinu. Síðan var hér sendiherra eftir stríð sem varð var við svo mikinn draugagang að hann fór fram á að húsið yrði selt, og það varð. Síðan eiga það aðrir aðilar og Reykjavíkur­borg kaupir það á sjötta áratugnum. Þá var það komið í mikla niðurníðslu og höfðust þar jafnvel rónar við. Þá var ákveðið að gera það upp og gera að móttökuhúsi fyrir Reykjavíkurborg. Það var tekið í notkun sem slíkt á dögum Geirs Hallgrímssonar borgarstjóra á sjöunda áratugnum," segir Guðjón.

Síðan hefur Höfði verið opinbert móttökuhús Reykjavíkur­borgar og þar borið til margt merkilegt.

„Langfrægastur er leiðtogafundurinn 1986 og birtust myndir af honum um allan heim. En annar atburður sem er mjög merkilegur er að þangað komu utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna 1991 og Íslendingar urðu fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði þessara ríkja. Sú athöfn fór fram í Höfða og húsið er því mikilvægt í sögu Eystrasaltsríkjanna líka," segir sagnfræðingurinn.

Í húsinu voru mjög merk málverk eftir þekktustu listmálara Íslands. Þar var og geymd gestabókin frá dögum leiðtogafundarins, með undirskriftum Reagans og Gorbatsjovs og allra sem komu með þeim, á einni blaðsíðu.

„Henni var nú bjargað, sem betur fer," segir Guðjón, glaður í bragði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×