Fastir pennar

Áætlunin „Next“

Einar Már Jónsson skrifar
Um miðjan september batt kona ein sem starfaði hjá franska símafyrirtækinu France Télécom enda á sína ævidaga með því að stökkva út um glugga á skrifstofu sinni á fjórðu hæð í aðalstöðvum fyrirtækisins í París. Menn urðu mjög slegnir, ekki síst vegna þess að þetta var í tuttugasta og þriðja skiptið á einu og hálfu ári sem einhver starfsmaður þessa sama fyrirtækis fargaði sér, og fyrir utan þessa menn var vitað um þrettán aðra sem gert höfðu tilraun til slíks eða lagt hendur á sjálfa sig. Nýlega var t.d. sagt frá því að einn tæknimaður símafyrirtækisins í bænum Troyes hefði stungið sig hnífi í kviðinn á vinnustað, fyrir framan samstarfsmenn sína, en honum var bjargað.

Lítill vafi lék á því að þessi sjálfsvígabylgja - sem virtist vera að aukast fremur en hitt, því að sjö af þessum tuttugu og þremur höfðu fargað sér á tveimur mánuðum, síðan um miðjan júlí - stóð í beinu sambandi við aðstæður á vinnustað. Það var alveg ljóst um níu þessara manna, og birti blaðið Le Parisien mynd af bréfi sem einn þeirra, arkitekt með þrjátíu ára starfsreynslu hjá fyrirtækinu, hafði skrifað. Þar mátti lesa: „Ég farga mér vegna starfsins hjá France Télécom. Það er eina ástæðan. Stöðug streita, ofþjökun í vinnu, engar leiðbeiningar, öllu skipulagi fyrirtækisins riðlað, ógnarstjórn! Þetta hefur algerlega brotið mig niður. Það er betra að binda enda á þetta allt." Önnur sjálfsvíg virtust vera af svipuðu tagi, konan sem stökk út um gluggann var nýbúin að fá tilkynningu um að það ætti að „endurskipuleggja" hennar deild, eina ferðina enn.

Þeim sem höfðu fylgst vel með umræðum kom þetta ekki mikið á óvart. Í Frakklandi hefur mikið verið rætt um eina hlið frjálshyggjunnar, sem ég veit ekki hvort Íslendingar þekkja af eigin raun en hefur verið mjög á dagskrá erlendis, og hún er sú að fara illa með starfsfólk, traðka á því á kerfisbundinn hátt og brjóta það niður. Síðan símafyrirtækið France Télécom var einkavætt árið 1996 hefur stöðugt verið að „endurskipuleggja" það til að gera það „samkeppnishæft" og auka gróðann. Stefnt var að því að fækka starfsmönnum mjög mikið, og þannig losaði fyrirtækið sig við fjörutíu þúsund þeirra á fáum árum en á fremur auðveldan hátt, aðallega með því að setja menn á eftirlaun, stundum fyrir tíma. En það þótti ekki nóg, þess vegna var hrundið í framkvæmd áætlun sem nefnd var „Next" - því að í nútímavæðingunni verður að skíra allt upp á engilsaxnesku - og miðaði að því að losa fyrirtækið við tuttugu og tvö þúsund til viðbótar. En þeir sem sátu nú eftir voru yfirleitt ekki á þeim buxunum að hætta, og því var gripið til þeirra ráða að ofsækja menn og fara sem harkalegast með þá þangað til þeir gæfust upp og færu af sjálfsdáðum. Arkitektinn sagði t.d. sínum nánustu frá því að á hverjum morgni fengi hann nafnlausan tölvupóst þar sem hann var m.a. spurður hvort honum fyndist ekki kominn tími til að breyta um og gera eitthvað annað. Svo var það algengt að mönnum væri tilkynnt fyrirvaralaust að það ætti að leggja niður þeirra deild og þeir yrðu fluttir í aðra deild, en í öðrum bæ kannske 50 eða 100 km í burtu. Sífellt var verið að breyta, auka vinnuálagið meir og meir, færa menn til, skipta um yfirmenn o.þ.h. til að koma í veg fyrir að nokkur félagsleg tengsl mynduðust milli starfsmanna, hárra og lágra. Með þessu móti hefur yfirmönnum hins einkavædda fyrirtækis nú tekist að losna við þennan ákveðna fjölda, flestir sögðu upp eða voru reknir, en svo voru einstaka menn sem völdu aðra aðferð. Og þá er spurningin: hver verður „next"?

Vitanlega hefur þessi stjórnunartækni - sem er kennd í skólum og ber heitið „management" - ekki aðeins þann tilgang að losna við menn, einnig er stefnt að því að gera þá sem eftir eru hrædda og öryggislausa, t.d. með því að láta þá aldrei vera lengi í sama starfinu innan um sömu félagana, til þess að þeir verði hlýðnir og undirgefnir og hægt sé að bjóða þeim hvað sem er, gera sífellt meiri kröfur til þeirra. Og á því er ekkert lát. Eftir að konan fargaði sér með því að stökkva út um gluggann sagði einn af yfirmönnum France Télécom að þetta væri afskaplega hörmulegur atburður, en þó yrði ekki gert hlé á „endurskipulagningunni", eins og stéttarfélög höfðu farið fram á, fyrirtækið mætti ekki dragast aftur úr í „samkeppninni".

Kannske er rétt að nefna að það hefur ekki einungis verið samin „Svört bók kommúnismans", einnig er til „Svört bók frjálshyggjunnar", en á henni er sá galli að hún úreldist skjótt, í rauninni þyrfti stöðugt að bæta við hana.










×