Viðskipti innlent

Endurfjármögnun bankanna ódýrari en áætlað var

Kostnaður ríkissjóðs vegna endurfjármögnunar nýju viðskiptabankanna þriggja mun nema um 330 milljörðum króna á þessu ári sem er um 60 milljörðum króna lægri upphæð en áður var áætlað samkvæmt samkomulagi ríkisins og skilanefnda gömlu bankanna. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag.

Innifalið í upphæðinni eru tvö 25 milljarða króna víkjandi lán ætluð Nýja Kaupþingi og Íslandsbanka til þess að hækka lausafjárhlutfall þeirra.

Skilmálar lánanna voru ekki gefnir upp í tilkynningu fjármálaráðuneytisins en ætla má að þau muni skila sér aftur til ríkisins á líftíma sínum. Markmiðið er að í kjölfar aðgerðanna verði eiginfjárhlutfall bankanna þriggja (Tier 1) um 12%.

Efnahagsreikningar verða tilbúnir 14. ágúst

Í kjölfar samninganna hefur Fjármálaeftirlitið ákveðið að endurfjármögnun bankanna verði lokið 14. ágúst næstkomandi með útgáfu skuldabréfa og annarra fjármálagerninga milli gömlu og nýju bankanna.

Í framhaldi af því verður bönkunum kleift að hefja starfsemi með fullbúna efnahagsreikninga frá bankahruninu í október auk þess sem hægt verður að birta endurskoðaða ársreikninga þeirra fyrir árið 2008. Þetta mun eiga sér stað óháð því hvort kröfuhafar ákveða að ganga að samkomulaginu. Náist ekki samkomulag við kröfuhafa í tilfelli Nýja Kaupþings og Íslandsbanka mun ríkið halda hlut sínum í nýju bönkunum samkvæmt tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Ætlunin er að í þeim tilfellum muni fjárfesting ríkisins skila sér til baka með því að nýju bankarnir gefi út skuldabréf sem tryggja viðunandi ávöxtun af fjárfestingunni. Þá munu ríkið veita skilanefndum viðkomandi banka kauprétt á 90% hlutafjáreignar ríkisins í nýju bönkunum sem verður hægt að nýta á árunum 2011-2015.

Vonast er til að samráði við kröfuhafa verði að mestu lokið fyrir septemberlok og fljótlega í kjölfarið muni liggja fyrir endanlegur eignarhlutur ríkisins í hverjum banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×