Erlent

Bílstjórar óttaslegnir í Árósum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Århus Sporveje, sem er strætisvagnafyrirtæki í Árósum, á í mestu vandræðum með að fá strætisvagnabílstjóra til þess að keyra á tilteknu svæði í borginni. Ástæðan er sú að strætisvagnabílstjórar óttast óeirðir á svæðinu.

Á miðvikudaginn síðasta var skotið úr loftbyssu á strætisvagn í Gellerup í Braband hverfinu í Árósum. Bílstjóri strætisvagnsins ók áfram eins og ekkert hefði í skorist en tók eftir því um þremur korterum síðar að maður af erlendum uppruna steig út úr bíl sínum og fór að mynda rúðuna sem skotið hafði verið á.

Jyllands Posten hefur það eftir talsmanni Århus Sporveje að bílstjórinn hafi getað mætt til vinnu eftir ökuferðina en honum væri mjög brugðið. Það á einnig við um fjölmarga samstarfsmenn hans. Bílstjórar séu jafnframt langþreyttir á steinköstum og hótunum í Gellerup. Atvikið á miðvikudaginn hafi ekki verið til að bæta það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×