Viðskipti innlent

Lárus segir að ekkert verði selt frá Baugi í Bretlandi

Lárus Finnbogason formaður skilanefndar Landsbankans segir að ekki standi til að selja neinar af verslunum eða eigum Baugs í Bretlandi meðan á greiðslustöðvun félagsins stendur og hún gæti staðið árum saman.

"Við völdum að fara þessa leið því með henni teljum við geta endurheimt mun meira af fjármunum en með þeirri endurskipulagningarleið sem Baugur vildi fara," segir Lárus í samtali við Fréttastofu.

Fram kemur í máli Lárusar að upphaflega hafi skuldir Baugs verið til meðferðar í Nýja Landsbankanum en þeim hafi síðan var skutlað aftur til skilanefndarinnar í kringum 10. desember s.l.. Því hafi í raun ekkert gerst í málinu í tvo mánuði.

"Við settum útibú Landsbankans í London í málið þar sem menn þar þekkja vel rekstur verslana og félaga í eigu Baugs í Bretlandi og eru í daglegu sambandi við ráðamenn þar," segir Lárus. "Þessi leið sem farin var var unnin af útibúinu í London í samvinnu við breska ráðgjafa sem kallaðir voru til."

Lárus segir að leiðin sem valin var muni ekki hafa nein áhrif á rekstur verslana og félaga Baugs í Bretlandi. Þessir aðilar haldi sínu striki áfram eins og áður.

"Ég vil ítreka enn og aftur að ekki stendur til að selja neina af eignum Baugs enda er markaðurinn fyrir slíka sölu afleitur í augnablikinu," segir Lárus. "Við ætlum að bíða, jafnvel árum saman, og selja svo þegar hámarksverð fæst fyrir þessar eignir."

Aðspurður um hvort einhverjar nýjar fyrirspurnir hafi komið í morgun frá áhugasömum kaupendum segir Lárus það ekkert að ráði. "Menn eru af og til að spyrjast fyrir en nú koma þeir bara að tómum kofanum."

 









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×