Innlent

Ákæruvaldið taki þátt í umræðunni

Ólafur Þór Hauksson
Ólafur Þór Hauksson

Það er stór spurning hvort ákæruvaldið eigi ekki að taka meiri þátt í umræðu um refsimál, segir sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson: „Það er allavega á hreinu að lögmannastéttin dregur ekkert af sér þar," segir hann.

„Það er eilítil slagsíða á þessu. Þegar verið er að tala við lögmenn sem hafa verjendastörf á hendi þá fara þeir aldrei úr hlutverki verjandans. Það hlutverk er bara eitt og það er að draga allt það fram sem er skjólstæðingnum til hagsbóta," segir hann. Því þurfi að líta það gagnrýnum augum sem þeir segi.

Rætt hefur verið um að ýmis ummæli Evu Joly hafi gert það að verkum að hún sé ekki trúverðug sem ráðgjafi í bankahruninu.

„Eva er ráðgjafi en ekki þátttakandi í einstökum rannsóknum og er þar af leiðandi ekki eins bundin og aðrir af því sem hún segir, en auðvitað er þetta fín lína," segir hann.

Svo lengi sem Eva tjái sig ekki um einstök mál, þannig að óhlutdrægni embættisins megi draga í efa, sé hún réttu megin við strikið.

„Hún skilur skoðanir sínar alveg eftir þegar hún er að vinna með okkur og miðlar til okkar af reynslu sinni. Vissulega má segja að þetta sé óhefðbundin nálgun og verklag, en við erum kannski í svolítið óhefðbundnu ástandi," segir Ólafur. „Þó að hún sé hvöss og brött, þá er hún ekki úr fasa."

Eva hafi tekið upp margt „markvert og stórfróðlegt", sem megi ræða betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×