Erlent

Lockerbie-slysið rannsakað á ný

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Flak farþegaþotu Pan Am sem fórst yfir Lockerbie fyrir rúmum tveimur áratugum. Því var púslað saman eins og hægt var við rannsókn málsins.
Flak farþegaþotu Pan Am sem fórst yfir Lockerbie fyrir rúmum tveimur áratugum. Því var púslað saman eins og hægt var við rannsókn málsins.

Skosk lögregluyfirvöld hafa tekið rannsókn Lockerbie-sprengjutilræðisins upp á nýjan leik með það fyrir augum að finna hugsanlegan vitorðsmann al-Megrahis sem hlaut fangelsisdóm fyrir tilræðið.

Tvö hundruð og sjötíu manns fórust þegar flug 103 frá Pan American-flugfélaginu fékk svipleg endalok yfir skoska smábænum Lockerbie 21. desember 1988. Sprengja í farangursrými vélarinnar sprakk og allir um borð fórust, 259 manns, ásamt ellefu á jörðu niðri. Eftir margra ára langa rannsókn og réttarhöld var Líbýumaðurinn Abdelbaset Ali Mohmed al-Megrahi dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir tilræðið en látinn laus nýlega af mannúðarástæðum þar sem hann þjáist af krabbameini og er ekki hugað líf.

Nýja rannsóknin mun eingöngu beinast að því hvort al-Megrahi hafi haft vitorðsmann við ódæðið en Lamin Khalifah Fhimah, landi al-Megrahis, var lengi vel grunaður um að hafa verið í vitorði með honum. Hann var að lokum sýknaður. Fjórir rannsóknarlögreglumenn munu vinna að rannsókninni í fullu starfi en meðal þeirra gagna sem einkum eru til skoðunar er brot úr rafrásabretti sem talið er að hafi verið hluti af sprengjunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×