Viðskipti innlent

Gjaldeyrisinnistæður hafa aukist um 70 milljarða

Gjaldeyrisinnistæður á innlánsreikningum í bönkunum jukust um 70 milljarða kr. frá því í maí í fyrra og fram til maí í ár. Samkvæmt bráðbirgðayfirliti frá Seðlabankanum námu þessar innistæður 103 milljörðum kr. í maí í fyrra en voru komnar í 173 milljarða í maí í ár.

Af þeim 173 milljörðum kr. sem Íslendingar áttu inni á gjaldeyrisreikningum í ár voru 36 milljarðar skráðir á reikninga heimili/einstaklinga og 137 milljarðar voru skráðir á fyrirtæki/lögaðila. Í maí í fyrra voru 24 milljarðar kr. skráðir á heimili og 79 milljarðar kr. skráðir á fyrirtæki/lögaðila.

Þegar tölur Seðlabankans eru skoðaðar kemur í ljós að innistæður þessar taka mikinn kipp í nóvember á síðasta ári í kjölfar bankahrunsins. Þá fóru þær í samtals 237 milljarða kr. og þar af voru innistæður heimila 63 milljarðar kr. Innistæður heimila hafa annars á tímabilinu frá síðasta hausti og fram að maí í ár verið á nokkuð líku róli frá mánuði til mánaðar á bilinu 35 til 40 milljarðar kr.

Eins og oft hefur komið í fréttum er talið að gjaldeyrir skili sér ekki inn á gjaldeyrismarkað hérlendis eins og hann ætti í eðlilegu árferði. Er þetta talin ein af orsökum þess að gengi krónunnar veikist stöðugt. Þessar tölur virðast styðja við þessar fullyrðingar.

Samkvæmt gjaldeyrishöftunum er skilaskilda á öllum gjaldeyri sem Íslendingar afla sér erlendis en ekki söluskylda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×