Erlent

Jarðýtum beitt á búðir flóttamanna

Flóttafólkið hafði komið sér fyrir þarna í von um að komast yfir til Bretlands. fréttablaðið/AP
Flóttafólkið hafði komið sér fyrir þarna í von um að komast yfir til Bretlands. fréttablaðið/AP
Franska lögreglan réðst í gærmorgun til atlögu gegn ólöglegum búðum flóttamanna, sem höfðu komið sér fyrir skammt frá borginni Calais við Ermarsund, í þeirri von að komast yfir til Englands um Ermarsundsgöngin.

Hundruð manna voru handtekin í „Frumskóginum“, eins og búðirnar voru nefndar. Að því búnu fór lögreglan með jarðýtur yfir svæðið til að hreinsa burt bráðabirgðatjöldin, gerð úr dúkum, plasti og staurum, sem fólkið hafði dvalist í.

Söguð voru niður tré og runnar sem notuð höfðu verið sem tjaldstangir.

Alls voru 278 manns handteknir í fyrstu umferð, en um helmingur þeirra var á barnsaldri. Flestir reyndust vera frá Afganistan. „Þessari aðgerð er ekki beint gegn flóttafólkinu sjálfu, heldur er henni beint gegn starfsemi þeirra sem stunda smygl á fólki, sem misnota fólkið,“ sagði Eric Besson, innanríkismálaráðherra Frakklands.

Vaxandi spenna hafði verið í samskiptum Frakka og Breta vegna búðanna við Calais. Óvíst er hvað verður um flóttamennina. Um 180 þeirra hafa fallist á að fara aftur til síns heima, en 170 ætla að sækja um hæli í Frakklandi. Aðrir verða væntanlega reknir úr landi, líklega til Grikklands, sem er það land í Evrópusambandinu sem þeir komu fyrst til.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×