Viðskipti innlent

FME vísar grun um markaðsmisnotkun til ríkislögreglustjóra

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur vísað máli vegna gruns um markaðsmisnotkun til ríkislögreglustjóra samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Í frétt um málið á vefsíðu FME segir að lögin sem vitnað er til fjalli um viðskipti eða tilboð um viðskipti sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna.

Þá fjalli lögin einnig um svokölluð sýndarviðskipti, þ.e. viðskipti eða tilboð um viðskipti sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennska.

Í því tilfelli sem hér um ræðir áttu sér stað viðskipti, eða tilboð um viðskipti, fjármálafyrirtækis með hluti í tveimur félögum dagana 4. og 10. júní 2008 og 24. júlí 2008. Taldi Fjármálaeftirlitið starfshætti fjármálafyrirtækisins og tveggja starfsmanna þess er störfuðu við eigin viðskipti fjármálafyrirtækisins og við miðlun verðbréfa fyrir hönd viðskiptavina þess, fela í sér markaðsmisnotkun.

Fólust fyrrgreindir starfshættir í því að tilboð fjármálafyrirtækisins um viðskipti með hluti í tveimur félögum voru hreyfð til, ýmist hækkuð sölutilboð þess eða lækkuð kauptilboð, rétt áður en tilboð voru gerð fyrir hönd viðskiptavinar. Leiddu starfshættirnir til þess að í einu tilviki hækkaði opinbert dagslokaverð bréfa í tilteknu félagi.

Í öðru tilviki urðu viðskipti á hærra verði en ætla má að viðskiptavinurinn hefði fengið ef fjármálafyrirtækið hefði ekki hækkað sölutilboð sitt nokkrum mínútum áður en lagt var fram kauptilboð viðskiptavinarins.

Í þriðja tilvikinu urðu viðskipti á lægra verði en ætla má að fjármálafyrirtækið hefði fengið ef sölutilboð viðskiptavinarins hefði verið sett inn í tilboðabókina áður en kauptilboð fjármálafyrirtækisins voru lækkuð.

Það sem fyrst og fremst gerði slíka starfshætti framkvæmanlega að mati Fjármálaeftirlitsins var að sömu starfsmenn fjármálafyrirtækisins fengust á sama tíma við viðskipti fyrir eigin reikning fjármálafyrirtækisins og miðlun verðbréfa fyrir viðskiptavini þess.

Með vísan til nefndra lagaákvæða og atvika málsins ákvað Fjármálaeftirlitið að vísa bæri málinu til ríkislögreglustjóra.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×