Erlent

Norður Kórea býr sig undir eldflaugaskot

Kim Jong-Il, leiðtogi Norður Kóreu.
Kim Jong-Il, leiðtogi Norður Kóreu.

Talið er að Norður Kóreumenn hafi í dag komið fyrir langdrægri eldflaug af gerðinni Taepodong-2 á skotpall í Musudanri í Norður Kóreu. Kyodo fréttastofan í Japan greinir frá þessu og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum.

Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa greint frá því að þeir ætli að skjóta á loft gervihnetti og það verði gert einhverntíman frá 4. til 8. apríl. Ráðamenn í nágrannaríkjum telja að ekki sé ætlunin að skjóta gervihnetti á loft heldur verði gerð tilraun með langdræga eldflaug sem dragi lengra en nokkur eldflaug Norður kóreumanna hafi nokkru sinni áður gert.

Það yrði brot á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem gerð var eftir að Norður Kóreumenn sprengdu kjarnorkusprengju í tilraunaskyni í fyrsta sinn í október 2006. Þá var þeim bannað að nota skotflaugar. Norður Kóreumenn hafa hins vegar haldið því fram að eldflaugaskotið brjóti ekki gegn ályktuninni og hafa látið alþjóðastofnanir vita af því að eldflauginn verði skotið yfir Japan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×