Innlent

Fjarskiptamastur hrundi í óveðri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjarskiptamastrið. Myndin er fengtin á vefnum Ríki Vatnajökuls.
Fjarskiptamastrið. Myndin er fengtin á vefnum Ríki Vatnajökuls.
Fjarskiptamastur sem stendur á Hestgerðishnútu sem er á Borgarhafnarfjalli í Suðursveit féll í óveðri um helgina með þeim afleiðingum að húsið sem hýsir tækjabúnaðinn lagðist á hliðina.

Á frétta- og upplýsingavef Hornafjarðar kemur fram að viðgerðarmenn gerðu tilraun til að komast á fjallið á laugardag en urðu frá að hverfa vegna veðurofsans. Eyðileggingin blasti síðan við þeim þegar þeir komust upp á fjallið í gær. Talið er líklegast að eitt stagið í mastrinu hafi slitnað með þeim afleiðingum að það féll.

Mastrið og húsið sem reist voru fyrir um ári síðan með þeim tilgangi að þjóna skipum á hafi úti, Mýrum, Suðursveit og Öræfum er í eigu Neyðarlínunnar 112 og hýsir Tetrakerfið ásamt búnaði frá Flugmálastjórn, 3G GSM kerfum frá Vodafone og Símanum. Einnig er þar nýr endurvarpi Bylgjunnar 103,9. Mastrið er talið ónýtt og nokkur loftnet sem í því voru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×