Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið sektar Senu og Haga um milljónir króna

Björn Sigurðsson framkvæmdarstjóri Senu og Finnur Árnason forstjóri Haga.
Björn Sigurðsson framkvæmdarstjóri Senu og Finnur Árnason forstjóri Haga.
Í nýjum ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins er komist að þeirri niðurstöðu að annars vegar Sena og hinsvegar Hagar hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við því að samruni komi til framkvæmda áður en eftirlitið hefur heimilað hann. Er lögð tuttugu milljóna króna sekt á Haga og fimmtán milljóna króna sekt á Senu vegna þessara brota.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu. Þá segir að í samkeppnislögum sé lagt bann við því að samruni komi til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann, nema til komi sérstakt leyfi Samkeppniseftirlitsins.

„Er þessari reglu ætlað að tryggja að unnt sé með fullnægjandi hætti að vinna gegn samkeppnishamlandi samrunum. Er sérstaklega gert ráð fyrir því í samkeppnislögum að lögð séu viðurlög á fyrirtæki sem brjóta gegn þessari reglu. Eru þetta fyrstu málin þar sem slíkum viðurlögum er beitt, en regla þessi kom inn í samkeppnislög í maí 2008.

Þá segir að mál Haga hf. varði samruna sem fólst í kaupum félagsins á BT Verslunum í nóvember 2008.

„Var sá samruni framkvæmdur af Högum áður en hann var tilkynntur Samkeppniseftirlitinu í samræmi við lög. Þar af leiðandi var samrunanum hrint í framkvæmd áður en Samkeppniseftirlitinu gafst tækifæri til að meta áhrif samrunans á samkeppni. Fólst í þessu brot á umræddu ákvæði samkeppnislaga. Eftir að Samkeppniseftirlitið birti það frummat sitt að umræddur samruni væri samkeppnishamlandi gengu kaupin til baka og BT er ekki lengur í eigu Haga. Um það er fjallað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 15. maí 2009 (nr. 20/2009)."

Mál Senu tengist kaupum félagsins á Skífunni í október 2008.

„Var sá samruni framkvæmdur af Senu áður en hann var tilkynntur Samkeppniseftirlitinu. Jafnframt var honum hrint í framkvæmd meðan málið var í rannsókn. Fólst í þessu brot Senu á áðurnefndu ákvæði samkeppnislaga. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 2. apríl 2009 (mál nr. 12/2009) var komist að þeirri niðurstöðu að samruni Senu og Skífunnar raskaði samkeppni. Þar sem annar aðili hafði í millitíðinni eignast Senu var talið unnt að heimila samrunann að uppfylltum skilyrðum til þess að vernda samkeppni," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×