Viðskipti innlent

Verð á landbúnaðarvörum myndi lækka um allt að 70%

Verð á landbúnaðarvörum myndi lækka um allt að sjötíu prósent, þegar tollar yrðu felldir niður við inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Kjör íslenskra bænda myndu hins vegar skerðast.

Þetta má meðal annars lesa út úr skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, en það olli fjaðrafoki á Alþingi í gær að hún skyldi ekki hafa verið birt. Markmið skýrslunnaar er að varpa ljósi á það hvaða áhrif það hefði á afkomu íslenskra bænda, ef landbúnaðarstefna Evrópusambandsins næði til þeirra, en styrkir til bænda hér á landi eru talsvert umfangsmeiri nú, en til bænda í Evrópusambandinu.

Bændasamtökin telja þessa úttekt á áhrifum af inngöngu í Evrópusambandið á íslenskan landbúnað ófullnægjandi

Hagfræðistofnunin telur að verð á kjúklingum lækki um 70% og verð á á eggjum og mjólkurvörum lækki um 55-60% með inngöngu í Evrópusambandið. Niðurstöður stofnunarinnar benda til að verð til bænda á kinda- og nautakjöti breytist ekki mikið.

Þá má velta því fyrir sér hvort kjúklingaframleiðsla sé yfir höfuð landbúnaðar- frekar en iðnaðarframleiðsla.

Niðurstöður skýrslunnar

Milli aðildarríkja ESB ríkir nær fullt frelsi til inn- og útflutnings landbúnaðarafurða, líkt og gildir um alla þjónustu og vörur sem fluttar eru á milli landanna. Skýrsla Hagfræðistofnunar leitaðist við að áætla stöðu íslenskra búa ef þau byggju við þá styrki og tollareglur sem gilda á Finnlandi, sem er aðili að ESB.

Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að verð til bænda á kinda- og nautakjöti breytist ekki mikið þó tollar til ESB falli niður. Sauðfjárbændur virðast því í fljótu bragði ekki hafa mikið að óttast þótt Ísland gangi í ESB og tollmúrar falli niður, að mati Hagfræðistofnunar.

Gögn OECD benda til þess að verð til bænda lækki mikið á kjúklingum, eggjum, mjólk og mjólkurvörum og svínakjöti ef tollar falla niður á innflutningi frá Evrópusambandslöndunum.

Langmest yrði verðlækkunin á kjúklingum eða 70%, 55-60% á eggjum og mjólkurvörum og verð á svínakjöti myndi lækka um 35% ef marka má skýrslu hagfræðistofnunarinnar.

Almennt matvöruverð út úr búð er að jafnaði 30% lægra í Evrópusambandinu en hér á landi og verð til bænda er að jafnaði 65-70% lægra ef tölur frá OECD eru lagðar til grundvallar.

Búvöruframleiðsla í Finnlandi hefur ekki minnkað að ráði síðan Finnar gengu í ESB og mjólkurframleiðsla hélst nokkurn vegin óbreytt í lítrum talið eftir inngöngu.

Íslenska ríkið greiddi 4,8 milljarða til mjólkurframleiðslu og 3,5 milljarða til sauðfjárræktar, í gegnum styrkjakerfi landbúnaðarins á síðasta ári.

Áhrif á afkomu búa

Niðurstöður úr skýrslu Hagfræðistofnunar benda til þess að tekjur búanna dragist verulega saman vegna lækkandi afurðaverðs og verðlækkana til bænda. Tekjur til bænda munu því minnka til muna. Á hinn bóginn myndi norðurslóðastuðningur af svipuðum toga og finnskir bændur njóta, draga verulega úr tekjumuninum og gera suma bændur jafn vel eða betur setta en þeir eru í dag.

Einnig er líklegt að aðgangur bænda að evrópskum aðfangamarkaði muni lækka framleiðslukostnað að einhverju leyti.

Talið er að afkoma sauðfjárbænda yrði umtalsvert betri en nú er, með inngöngu í ESB. Forsendur Hagfræðistofnunar um lægra verð, gera ráð fyrir allmikilli aukningu útflutnings.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×