Skoðun

Genfarsamningarnir 60 ára

Anna Stefánsdóttir skrifar

Í dag eru liðin sextíu ár frá því að Genfarsamningarnir fjórir voru undirritaðir. Samningarnir veita mönnum vernd í vopnuðum átökum og þeir eru enn í dag hornsteinninn í alþjóðlegum mannúðarrétti. Samningarnir hafa bjargað ótöldum mannslífum, bætt aðstæður þúsunda stríðsfanga og leitt til þess að milljónir sundraðra fjölskyldna hafa sameinast.

Enda þótt ógnir stríðsátaka taki stöðugum breytingum halda Genfarsamningarnir gildi sínu og eru áfram grundvöllur þess hjálparstarfs sem fram fer á vígvöllum um víða veröld. Í samningunum eru ákvæði sem veita Rauða krossinum víðtækt hlutverk við að vernda og aðstoða fórnarlömb stríðsátaka. Rauði krossinn fræðir stríðandi fylkingar um Genfarsamningana og fylgist með því að þeir séu virtir.

Í tilefni dagsins hafa Rauða kross félögin í Evrópu beint þeim tilmælum til forsætisráðherra sinna að stjórnvöld sinni eftirfarandi viðfangsefnum:

• Útbreiðsla: Breiða þarf út þekkingu á alþjóðlegum mannúðarlögum, bæði meðal hermanna og meðal almennings svo að hann viti um þá vernd sem honum ber.

• Framkvæmd: Stöðugt þarf að leggja áherslu á að fullgilda samninga um alþjóðlegan mannúðarrétt og tryggja framkvæmd þeirra.

• Málsvarastarf í þágu mannúðar: Evrópuríkin þurfa að beita sér fyrir því að óháð og sjálfstæð mannúðaraðstoð geti farið óhindrað þar sem vopnuð átök geisa.

• Ábyrgð: Refsa ber þeim sem gerast sekir um glæpi í vopnuðum átökum. Hina brotlegu á að draga til ábyrgðar fyrir brot sín. Ríki þurfa að tryggja að landslög heimili að sótt sé til saka fyrir slík brot.

Stríðsátök skapa enn í dag ómælda mannlega neyð, en þrátt fyrir það er rétt að minnast Genfarsamninganna, sem hafa síðustu sextíu árin komið í veg fyrir eða linað miklar mannlegar þjáningar.

Höfundur er formaður Rauða kross Íslands.








Skoðun

Sjá meira


×