Erlent

Lögleiðing fíkniefna gæti sparað 14 milljarða punda

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Samkvæmt nýrri skýrslu breskra yfirvalda gæti það breytt töluvert miklu fyrir skattgreiðendur, réttarvörslukerfið, afbrotamenn og fórnarlömb þeirra að leyfa fíkniefni í Bretlandi.

Í skýrslunni, sem kemur út í dag, er það metið svo að lögleiðing fíkniefna, sem yrðu þá seld undir eftirliti stjórnvalda, gæti sparað allt að 14 milljörðum punda, jafnvirði rúmlega 2.000 milljarða króna. Skýrslan stillir upp nokkrum mögulegum dæmum, allt frá því að fíkniefnaneysla aukist ekki neitt við þessa aðgerð upp í það að aukning neyslu yrði veruleg.

Gert er ráð fyrir að meðferðarúrræði yrðu stórbætt samhliða þessu og peningarnir sem kæmu í ríkiskassann sem gróði af lögleiðingunni meðal annars notaðir til þess. Þá er einnig litið til þess hve kostnaður réttarvörslukerfisins drægist saman samhliða því að afbrotum fækkaði þar sem fíkniefni yrðu ódýrari undir ríkiseftirliti og neytendur þyrftu mun síður að fremja afbrot til að nálgast þau.

Skýrslan er unnin í kjölfar nokkurrar umræðu í bresku þjóðfélagi um lögleiðingu fíkniefna, mögulega kosti hennar og galla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×