Innlent

Mestu annir þingsögunnar

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sést hér kynna nýjum þingmönnum starfsemi þingsins, reglur þess og venjur í kjölfar kosninganna í apríl.fréttablaðið/gva
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sést hér kynna nýjum þingmönnum starfsemi þingsins, reglur þess og venjur í kjölfar kosninganna í apríl.fréttablaðið/gva
„Ég held að þetta sé annasamasta árið í sögu Alþingis, að minnsta kosti frá því að ég hóf hér störf og það er langt síðan,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.

Lítið uppihald hefur verið í þinginu allt þetta ár. Vorþing stóð fram í miðjan apríl, mánaðarhlé var vegna kosninga, og sumarþing stóð til ágústloka. Haustþing var svo sett 1. október. Sem kunnugt er verða þingfundir milli jóla og nýárs sem er afar fátítt.

Helgi segir hættu á að mikið álag og hraði bitni á störfum þingsins. Nokkur dæmi um mistök eða villur við lagasetningu hafi komið upp en ekki hafi hlotist skaði af.

Ekki er nóg með að þingið hafi starfað óvenju lengi heldur hefur það vikið frá venjum um fundartíma. „Reglan hefur verið sú að ekki hefur verið fundað á föstudögum, heldur ætlast til að þingmenn gætu nýtt þá vikudaga til að sinna kjördæmi sínu og kjósendum. Þetta árið hafa hins vegar verið margir fundir á föstudögum og líka á laugardögum,“ segir Helgi.

Eins og gefur að skilja er fólk þreytt og lúið eftir þessa löngu og erfiðu törn. Helgi segir margt ungt og kraftmikið fólk vinna í þinginu en á móti komi að margt eigi það lítil börn sem vitaskuld þurfi að sinna. „Það er reyndar óvenjulega gott og röskt fagfólk hér á Alþingi en það eru mörk fyrir því hvað hægt er að bjóða fólki. Áður, þegar mikið hefur verið að gera, gat fólk lifað með því að hér hefur verið svolítið hlé frá jólum og fram eftir janúar og svo frá miðjum júní og fram í september. Nú er því ekki að heilsa.“

Vegna hins langa sumarþings gat margt starfsfólk ekki tekið hefðbundið sumarleyfi. Helgi segir að fyrir vikið eigi margir inni óúttekið orlof, sumir meginhluta þess. „Það hefur hrúgast upp og við eigum í hálfgerðum vandræðum með þetta. Við höfðum ætlað fólki að taka leyfi núna í kringum jólin og í janúar en það verður allavega ekki á milli jóla og nýárs.“

Fjárframlög til Alþingis hafa verið skorin niður líkt og víðast hvar í ríkisrekstrinum. Helgi segir það bitna á starfsemi þingsins. „Við gengum mjög langt í niðurskurði á þessu ári, hér var skorið niður um tíu prósent, meira en víða í stjórnkerfinu, og við þurfum að skera enn frekar niður á næsta ári. Það var skorið niður bæði í rekstri og ekki síður í greiðslum til þingmanna. Laun starfsfólks hafa verið lækkuð og það er auðvitað erfitt að stjórna fólki sem í senn eru gerðar auknar kröfur til og jafnframt er verið að lækka launin við.“

Helgi segist hafa gert þingforseta og forsætisnefnd grein fyrir ástandinu og að formenn þingnefnda séu upplýstir um þá nýju reglu að ekki sé unnið á skrifstofum þingsins eftir tólf á miðnætti og á sunnudögum. „Ég setti þá reglu um síðustu mánaðamót þegar ég tilkynnti starfsfólkinu um launalækkun. Við höfum reynt að halda þetta en á því hefur því miður orðið misbrestur síðustu vikur.“

bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×