Viðskipti innlent

ÍLS minnkar útgáfu íbúðabréfa sinna um 5-6 milljarða

Endurskoðuð áætluð útgáfa íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs (ÍLS) árið 2009 til fjármögnunar nýrra útlána er 28-32 milljarðar króna, sem er lækkun um 5-6 milljarða frá fyrri tölum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍLS. Sjóðurinn áætlar að ný útlán sjóðsins verði á bilinu 36-40 milljarðar króna á árinu 2009, sem er lækkun um 5-7 milljarða kr. frá fyrri áætlun. Þar af er gert ráð fyrir að leiguíbúðalán verði á bilinu 10-12 milljarðar króna, sem er lækkun um 2 milljarða frá fyrri áætlun.

„Töluverð óvissa ríkir um útlána- og útgáfuáætlanir í ljósi breyttra aðstæðna á fjármála- og fasteignamarkaði. Nákvæmar tölur um áætluð útlán og útgáfu íbúðabréfa er því ekki hægt að gefa upp. Þannig geta einstaka tölur í útboðum færst á milli ársfjórðunga og veltur það á markaðsaðstæðum hverju sinni.," segir í tilkynningunni.

„Íbúðalánasjóður áætlar áfram að greiða lánadrottnum sínum á bilinu 60-64 milljarða króna á árinu 2009 og er stærstur hluti þeirra tilkominn vegna afborgana íbúðabréfa.

Áætlun þessi miðast við núverandi aðstæður á fasteigna- og íbúðalánamarkaði. Verði breytingar á markaðsaðstæðum má reikna með að ofangreind áætlun geti breyst. Íbúðalánasjóður endurskoðar áætlanir sínar ársfjórðungslega og oftar ef þörf krefur."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×