Viðskipti innlent

Erlendar krónueignir hafa minnkað um 70 milljarða í ár

Peningastefnunefnd ræddi krónueignir erlendra aðila á síðasta fundi sínum í byrjun júlí. Samkvæmt nýju mati nam eign þeirra 610 milljörðum kr. í lok júní og hafði þá minnkað um 70 milljarða kr. frá ársbyrjun.

Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að langtímaeignir höfðu aukist lítillega en skammtímaeignir minnkað úr 330 milljörðum kr. í 260 milljarða kr.

„Þó svo að mikillar óvissu gæti í þessu mati gefur það til kynna að verulega hefur dregið úr krónueignum erlendra aðila," segir í fundargerðinni.

Þá kemur fram í fundargerðinni að munurinn á gengi íslensku krónunnar á innlendum gjaldeyrismarkaði og aflandsmarkaði jókst á ný eftir að hafa minnkað á undanförnum mánuðum. Í lok júní voru viðskipti með krónuna á genginu nálægt 215 gagnvart evru á aflandsmarkaði, en voru á bilinu 190-210 í maí. Þessar tölur ber þó að túlka af varúð þar sem lítil viðskipti fóru fram á aflandsmarkaði.

Áhættuálag á íslenskar fjáreignir hafði lækkað lítillega frá byrjun júní en var áfram hátt, nálægt 6,5-7,0 prósentum. Viðskipti voru hinsvegar enn óveruleg og gæti verð hafa mótast af öðrum þáttum en mati á greiðsluáhættu ríkisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×