Innlent

Lögregla tók ekki sýni af bíl Rannveigar

Lögregla tók ekki sýni af lakkleysi sem var notaður í skemmdarverkum á bílum forstjóra álversins í Straumsvík og Orkuveitu Reykjavíkur. 27 skemmdarverk með málningu á heimilum útrásar- og stóriðjuforkólfa eru enn óupplýst.

Eins og fram kom í fréttum helgarinnar lenti ætandi lakkleysir rétt undir auga Rannveigar Rist forstjóra álversins í Straumsvík eftir árás skemmdarvarga á heimili hennar og fjölskyldubíl í ágúst. Þann fimmta ágúst hafði grænni málningu verið skvett á heimili Rannveigar í skjóli nætur. Þegar Rannveig kom út morguninn eftir og opnaði dyrnar að fjölskyldubílnum skvettist lakkleysir úr hurðafalsi á andlit hennar, á höku og undir auga. Ekki er vitað með vissu hvaða efni var sett á bílinn, en efnið mun þó hafa verið svo ætandi að það át sig inn í húð Rannveigar svo djúpt sár varð eftir dropann sem skilur eftir sig ör. Ekki verður upplýst hvaða efni þetta var því samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ekki tekið sýni af efninu.

Þau hlaupa nú á tugum skiptin sem forkólfar útrásar og stóriðju hafa vaknað upp að morgni og séð að málningu hafði verið skvett á heimili þeirra. Lögregla rannsakar nú 27 slík mál, það fyrsta er frá 29. maí þegar málningu var slett á heimili Birnu Einarsdóttur bankastjóra Íslandsbanka. Sá sem stýrir rannsókninni hjá lögreglu vildi ekkert um það segja hvernig gengi, þegar fréttastofa hafði samband í morgun. Hann vildi ekki upplýsa hvort einhver eða einhverjir væru grunaðir um þessa verknaði. Málið er því enn óupplýst.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.