Viðskipti innlent

Þjóðarbúið getur staðið við Icesave skuldbindingarnar

Gunnar Örn Jónsson skrifar

„Þjóðarbúið verður fyllilega fært um að standa undir Icesave samningnum," segir í mati Seðlabankans á erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins. Þetta kom fram á fréttamannafundi sem haldinn var í hádeginu. Bankinn telur að með skynsamri hagstjórn og jákvæðum vöruskiptajöfnuði á næstu níu árum mun geta þjóðarbúsins til að standa við skuldbindingar sínar aukast ennfrekar. Seðlabankinn áætlar 75% endurheimtuhlutfall á eignum Landsbankans.

Seðlabankinn býst við því að í lok árs 2015 verði búið að selja allar erlendar eignir gamla Landsbankans en þær koma til með að ganga upp í Icesave skuldbindinguna.

Miðað við 75% endurheimtuhlutfall á eignunum er búist við að Icesave skuld íslenska ríkisins muni nema 342 milljörðum króna árið 2015. Þá fjárhæð á að greiða upp á átta árum sem samsvarar um 30 milljarða króna afborgun á ári, sé upphæðin núvirt frá árinu 2015 eins og Seðlabankinn gerir ráð fyrir í sínum útreikningum.

Mat Seðlabankans verður að teljast í jákvæðari kantinum en til að mynda gerir matið ráð fyrir að gengi evru verði að meðaltali 158 krónur á lánstímanum, gengi hennar nú er 180 krónur.

Auk þess kemur fram að Icesave skuldbindingin á þessu ári sé 575 milljarðar króna en flestir útreikningar benda til þess að hún sé í kringum 700 milljarðar króna. Einnig kemur fram í matinu að gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans muni aukast um ríflega 300 milljarða króna á næsta ári, án þess að færð séu rök fyrir þeim forsendum sem búa að baki útreikningunum.

Fréttastofa á von á því að fá svör frá Seðlabankanum í dag varðandi þessi atriði og verður þeim komið á framfæri á Vísi um leið og þau berast.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×