Viðskipti innlent

Skuldatryggingarálag lækkar eftir bankafréttir

Skuldatryggingarálagið á íslenska ríkið lækkaði í dag í kjölfar frétta víða um heim um endurfjármögnun íslensku bankana. Í morgun stóð álagið í 622 punktum en eftir að fréttirnar um endurfjármögnunina fóru að berast lækkaði álagið í 609 punkta.

Hægt er að sjá lista yfir þær tíu þjóðir heims sem eru með hæsta skuldatryggingarálag á skuldbindingum sínum hjá CMA Datavision en CMA heldur utan um skráningu og viðskipti með skuldatryggingar í heiminum.

Þrátt fyrir að skuldatryggingar á íslenska ríkið hafi lækkað töluvert að undanförnu er landið samt sem áður í fimmta sæti þeirra þjóða sem mest er talin hætta á að lendi í gjaldþroti.

Skuldatryggingarálag á ríkissjóð lækkaði einnig talsvert kjölfar frétta um að Alþingi hefði samþykkt aðildarviðræður við ESB í síðustu viku. Álagið fór úr 660 punktum í upphafi dags í 624 punkta í dagslok á fimmtudag í síðustu viku.

Þegar álagið var sem hæst í vetur nam það vel yfir 800 punktum svo að segja má að landið sé á réttri leið hvað þetta varðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×