Erlent

Fá bóluefni send í pósti

Heilbrigðisyfirvöld í Noregi hafa varað fólk við því að fá bóluefni send til sín í pósti. fréttablaðið/vilhelm
Heilbrigðisyfirvöld í Noregi hafa varað fólk við því að fá bóluefni send til sín í pósti. fréttablaðið/vilhelm
Heilbrigðisyfirvöld í Noregi hafa varað fólk við því að fá sent til sín inflúensubóluefni í pósti frá öðrum löndum. Bóluefnið Pandemrix hefur verið notað gegn svínaflensunni en einhverjir hafa brugðið á það ráð að útvega sér annað lyf í pósti.

Einungis heilbrigðisstarfsmenn og þeir sem eru í sérstökum áhættuhópi hafa verið bólusettir gegn svínaflensunni og almenn bólusetning verður líklega ekki fyrr en um miðjan nóvember. Óþolinmóðir Norðmenn hafa því tekið málin í sínar hendur. Oft eru það vinir sem búa erlendis sem senda þeim lyfin til Noregs, í mörgum tilfellum frá Bandaríkjunum.

„Við höfum varað fólk við því að fá sent til sín bóluefni í pósti vegna þeirrar miklu áhættu sem flutningur hefur í för með sér. Bóluefni eru viðkvæm fyrir frosti og háu hitastigi og þess vegna getur flutningur þeirra í pósti orðið til þess að áhrif þeirra verði engin eða að þau hafi fleiri aukaverkanir í för með sér,“ sagði Svein Rune Andersen, deildarstjóri hjá norska Ríkisspítalanum í viðtali við Aftenposten.

Einnig er óttast að svartamarkaðsbrask verði með bóluefnin. „Sá möguleiki er fyrir hendi og við vörum eindregið við bóluefnunum sem þar eru seld. Önnur lyf, eins og Viagra, getur maður keypt á netinu. En við vitum ekkert um gæði þeirra og notkun þeirra getur haft alvarlegar aukaverkanir,“ sagði Andersen. - fb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×