Viðskipti innlent

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna nú 28% af heildareignum

Erlendar eignir lífeyrissjóða námu 485 milljörðum kr. í maílok, sem svarar til 28% af hreinni eign þeirra.

Greining Íslandsbanka segir að lífeyrissjóðir landsmanna séu nú hægt og bítandi að rétta úr kútnum eftir það þunga högg sem þeim var greitt þegar fjármála- og gjaldeyriskreppan skall á í fyrrahaust. Enn er þó raunvirði eigna sjóðanna talsvert minna en var fyrir hrun.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam hrein eign lífeyrissjóðanna 1.733 milljörðum kr. í lok maí. Eignin jókst um ríflega 22 milljarða kr. í mánuðinum. Munaði þar mestu um tæplega 15 milljarða kr. aukningu á erlendum eignum sjóðanna, en maí var hagfelldur mánuður á erlendum hlutabréfamörkuðum.

Hrein eign lífeyrissjóðanna í krónum talið er nú að nálgast það hámark sem hún náði í fyrrasumar. Til að mynda var eignin í maílok 3,8% minni en á sama tíma í fyrra að nafnvirði. Að raungildi hafði hrein eign lífeyrissjóðanna hins vegar rýrnað um tæplega 14% í lok maí frá sama mánuði árið 2008.

Þar sem iðgjaldagreiðslur inn í kerfið eru umtalsvert meiri en lífeyrisgreiðslur hefur ávöxtun sjóðanna verið töluvert lakari en ofangreindar tölur gefa til kynna. Í ljósi þess að stærstur hluti innlends hlutabréfamarkaðar er að engu orðinn og svipaða sögu má segja um verulegan hluta eignar sjóðanna í innlendum fyrirtækjaskuldabréfum ætti það varla að koma á óvart.

Hátt innlent vaxtastig og gengishrun krónu, sem hækkar verðgildi erlendra eigna í krónum talið, hefur hins vegar dregið úr högginu á lífeyriskerfið. Miðað við spá fjármálaráðuneytisins um að landsframleiðslan (VLF) í ár verði ríflega 1.400 milljarðar kr. nam hrein eign sjóðanna í lok maí u.þ.b. 120% af áætlaðri VLF, sem má teljast harla gott á alþjóðlega vísu. Enn eru þó ekki öll kurl komin til grafar varðandi innlendar eignir lífeyrissjóðanna og kann staðan því að breytast nokkuð á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×