Viðskipti innlent

Sameiningar nánast óhjákvæmilegar

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon

Margar leiðir til sameiningar fjármálastofnana hafa verið skoðaðar í viðskiptaráðuneytinu, en engin áform eru um sameiningu tveggja af viðskiptabönkunum þremur, segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Ekki er hægt að útiloka að einhverjar af smærri fjármálastofnunum landsins verði sameinaðar viðskiptabönkunum, en engin ákvörðun hefur verið tekin um slíkt, segir Gylfi. Þó sé nánast óhjákvæmilegt að einhverjar sameiningar verði hjá sparisjóðunum.

„Það hefur verið lögð mikil vinna í að skoða framtíðarskipulag fjármálakerfisins […] mikil vinna hefur verið lögð í að teikna upp ýmsa möguleika," segir Gylfi. Hann segist enn ekki hafa tekið afstöðu til þess hvaða fyrirkomulag hann telji heppilegast fyrir íslenskan bankamarkað.

„Sameining tveggja af stóru bönkunum er mjög fjarlægur möguleiki af ýmsum ástæðum," segir Gylfi. Erfitt sé að réttlæta að búa til banka með yfir 50 prósenta markaðshlutdeild út frá samkeppnissjónarmiðum. Þá myndi slík sameining einnig hafa afar neikvæð áhrif á millibankamarkað og fjármálastöðugleikann í landinu.

„Ég vil sjá fjármálakerfi þar sem sparisjóðirnir gegna talsverðu hlutverki, þá sérstaklega í þjónustu við einstaklinga og smærri fyrirtæki. Þeir myndu þá fyrst og fremst hafa rætur utan höfuðborgarsvæðisins með nánum tengslum við heimabyggðina," segir Gylfi.

Hann segir slíkt afturhvarf til upprunalegra gilda sparisjóðanna jákvætt út frá samkeppnissjónarmiðum, enda sparisjóðirnir valkostir við stóru viðskiptabankana fyrir viðskiptavini. Sjóðirnir verði þó að vera sæmilega stórir og lífvænlegir, svo taka þurfi til í kerfinu til að þessi framtíðarsýn sé raunhæf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×