Viðskipti innlent

Gengismunur krónu innan og utanlands minnkar

Síðustu viku hefur krónan styrkst gagnvart evru í viðskiptum á aflandsmarkaði en veikst lítillega í opinberum viðskiptum og því hefur heldur dregið úr mun á gengi evru gagnvart krónu á þessum tveimur mörkuðum.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að síðastliðinn mánuð hefur munur á gengi krónunnar gagnvart evru á aflandsmarkaði og opinberu gengi Seðlabanka Íslands farið vaxandi en frá því í byrjun apríl þar til um miðjan maí dró mikið úr þessum mun.

Ef miðað er við skráð gengi Seðlabankans hefur krónan veikst látlaust gagnvart evru síðan í byrjun mars. Gengi evru hefur þannig stigið úr um 141 krónum í tæpar 180 krónur, eða um rúm 27%.

Aflandsgengið hefur hinsvegar sveiflast á þessu tímabili, frá 205 krónum upp í 300 krónur og stendur nú í 220 krónum. Þannig er aflandsgengi evru um 42 krónum hærra en gengi Seðlabankans í dag en munurinn var mestur 24. mars, 145 krónur.

Fyrir hrun bankanna síðasta haust munaði mestu um 4 krónum á gengi evru á aflandsmarkaði og Seðlabankagengi. Raunar breikkaði bilið aðeins tvisvar svo mikið á öllu tímabilinu frá miðju ári 2006 og þar til í október, enda flæddi fjármagn frjálst milli Íslands og annarra landa á þessum tíma.

Fáeinum dögum eftir fall bankanna fór aflandsgengið upp í 340 kr. á evru en lækkaði þó aftur á haustmánuðum. Mikil uppsveifla kom í aflandsgengi evru í mars eins og áður segir en það lækkaði síðan ört í aprílmánuði og hefur haldist á bilinu 200 - 220 krónur síðan í byrjun maí.

Bent skal þó á að viðskipti með íslenskar krónur á aflandsmarkaði eru býsna stopul, eins og sést vel á myndinni hér að neðan, þar sem skráð aflandsgengi stendur í stað marga daga í röð, en það bendir til að viðskipti séu lítil eða engin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×