Viðskipti innlent

Sumarhugur virðist vera kominn í bílainnflytjendur

Sumarhugur virðist vera kominn í bílainnflytjendur, en samkvæmt tölum frá Umferðarstofu voru nýskráðar 177 bifreiðar í fyrstu vikunni í júní, samanborið við að nýskráðar voru 220 bifreiðar nettó í öllum maímánuði, en þá hefur verið tekið tillit til nýrra bifreiða sem bæði voru nýskráðar og afskráðar í mánuðinum.

Þetta kemur fram í Hagssjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að hafa beri þó í huga að innflutningur bifreiða getur sveiflast mikið innan mánaðarins, þar sem hann kemur að megninu til sjóleiðina til landsins. Þessar nýskráningar eru þó sáralítill hluti af því mikla magni af bílum sem var nýskráð í hverjum mánuði fyrir hrun bankanna.

Eins og sést hefur á hagtölum síðastliðna mánuði hefur innflutningur á ökutækjum nær lagst af hér á landi. Áætla má bifreiðainnflutning með því að skoða tölur um nýskráningar bifreiða.

Töluverð árstíðarsveifla er á nýskráningum, en þrátt fyrir nærri tvöföldun á innflutningi bifreiða í maí samanborið við fyrri mánuð þá er árstíðarleiðrétt aukning einungis um 7%. Sömuleiðis eru nýskráningar bifreiða það sem af er ári einungis ríflega helmingur á við meðalmánuð sl. tvö ár.

Bifreiðaeign Íslendinga hefur aukist hröðum skrefum síðastliðin ár en í lok árs 1994 voru 0,6 skráðar bifreiðar á hvern Íslending, 17 ára og eldri, en í lok árs 2008 átti hver Íslendingur, 17 ára og eldri, ríflega 1 bíl að meðaltali. Það ætti því að vera svigrúm til þess að draga verulega saman innflutning og kaup heimilanna á bifreiðum á næstunni án þess að þetta hlutfall nái lágum gildum í sögulegu samhengi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×