Innlent

Vilja fella ríkisábyrgð Icesave-skulda úr gildi

InDefence telur að axla eigi ábyrgð og takast á við vandamálið nú þegar í stað þess að fleyta vandamálunum á undan sér.
InDefence telur að axla eigi ábyrgð og takast á við vandamálið nú þegar í stað þess að fleyta vandamálunum á undan sér. Mynd/Arnþór

„Við verðum að neita að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingarnar án einhvers konar fyrirvara," segir Ólafur Elíasson, einn af forsvarsmönnum InDefence-hópsins um Icesave-samninginn.

Hann telur að líkt og staðan sé nú eigi bresk og hollensk yfirvöld einungis vafasama lagalega kröfu á Íslendinga. Ólafur bendir hins vegar á að ef samningur er samþykktur þá munu Bretar og Hollendingar eiga fullkomlega gilda lagalega kröfu á hendur íslenska ríkinu að sjö árum liðnum. Því sé nauðsynlegt að bregðast við nú. Nauðsynlegt er að neita samningnum og setjast aftur að samningaborðinu.

Samkvæmt gögnum frá In­Defence-hópnum er talið að vaxtagreiðslur af Icesave-láninu verði um 40 milljarðar á ári eftir sjö ár. Í fréttayfirlýsingu frá hópnum er lýst áhyggjum af þeim skuldbindingum sem samningurinn felur í sér og erfitt sé að afla nægilegra gjaldeyristekna til að standa undir þeim byrðum sem felast í vaxtagreiðslum af gjaldeyrisláninu frá breskum og hollenskum stjórnvöldum.

„Við lifum í upplýstu samfélagi og þess er krafist að spurt sé spurninga í dag en ekki að sjö árum liðnum," segir Magnús Árni Skúlason, annar af forsvarsmönnum hópsins. „Menn verða að axla ábyrgð, ekki fleyta þessu á undan sér heldur takast á við vandamálið strax," segir hann. Magnús bendir á að það sé í anda hins nýja Íslands að skoða málið nú og taka upplýsta ákvörðun í dag.

Á fundinum kom fram skýr krafa um að alþingismenn og aðrir ráðamenn fái allar þær upplýsingar sem til eru svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um málið. Forsvarsmenn InDefence-hópsins telja upplýsingaflæði og samvinnu við hópinn ekki nægilegt. Bent var á að þegar hópurinn hélt til Bretlands í vetur þá fékk hann meiri tíma með breskum yfirvöldum en hópurinn hefur fengið með íslenskum ráðamönnum.

„Við viljum ekki að landið hætti að greiða skuldir heldur að landið hafi forsendur til að greiða skuldirnar niður," segir Magnús Árni Skúlason, einn af forsvarsmönnum hópsins. Ein af þeim lausnum sem hópurinn leggur til er að greiða fast hlutfall af landsframleiðslu á næstu árum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×