Viðskipti innlent

Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara er 22%

Í þeim erfiðu aðstæðum sem nú ríkja á vinnumarkaði hefur atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara á innlendum vinnumarkaði aukist gríðarlega líkt og atvinnuleysi almennt.

Þegar stuðst er við mat Vinnumálastofnunnar um að nálægt 9.000 erlendir ríkisborgarar séu nú á innlendum vinnumarkaði er ljóst að 22% atvinnuleysi ríkir nú meðal erlendra ríkisborgara.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þetta sé mun meira atvinnuleysi en almennt er í landinu en skráð atvinnuleysi er rúmlega 8%. Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hér á landi hefur aukist gríðarlega frá bankahruni en í ágúst síðastliðnum var það innan við 2% og í byrjun árs tæplega 17%.

Engan þarf að undra að ástandið á vinnumarkaði nú kemur harðar niður á erlendum ríkisborgurum. Kreppan hefur komið einna verst niður á þeim starfsgreinum þar sem þeir hafa verið umsvifamiklir í svo sem byggingariðnaði og mannvirkjagerð en ætla má rúmlega 3.000 störf hafi tapast í mannvirkjagerð frá því í október síðastliðnum.

Hvorki meira né minna en 41% þeirra erlendu ríkisborgara sem voru skráðir án atvinnu hjá Vinnumiðlunum í síðasta mánuði störfuðu áður í mannvirkjagerð þannig að ljóst er að samdráttur í þeirri grein hefur haft gríðarlega mikið að segja um atvinnuhorfur hér á landi fyrir útlendinga.

Þá er ljóst að aukið atvinnuleysi hér á landi hefur þau áhrif að heimamenn sækja nú í meiri mæli í störf sem áður var erfitt að ráða í góðæri undanfarinna ára var þenslan slík á vinnumarkaði að nánast þurfti að flytja inn fólk frá öðrum löndum til að manna störf við umönnum og þjónustu.

Þetta m.a. gerir það að verkum að atvinnuleysi hefur aukist meira meðal erlendra ríkisborgara heldur en atvinnuleysi almennt á sama tíma. Í lok síðasta mánaðar voru 2.000 erlendir ríkisborgarar skráðir án atvinnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×