Viðskipti innlent

Athyglisverð þróun á vöxtum Seðlabankans

Frá því um miðjan desember hafa innlánsvextir Seðlabankans lækkað umtalsvert meira en stýrivextir. Fyrir þann tíma hafði munur á stýrivöxtum og innlánsvöxtum verið um 0,5% en breikkaði mest í 3,5% og er nú 2,5%.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að þar sem bankastofnanir ávaxta laust fé í Seðlabanka slá innlánsvextirnir því taktinn fyrir vaxtakjör í bankakerfinu og má því segja að hinir eiginlegu stýrivextir kerfisins hafi lækkað um 8% frá því að þeir náðu hámarki síðasta haust, þrátt fyrir að opinberir stýrivextir hafi aðeins lækkað um 6%.

Engin velta var á millibankamarkaði með krónur í júní, en það er í annað skipti á árinu þar sem engin velta er á markaðinum yfir heilan mánuð. Mikið hefur dregið úr veltunni frá því hún var hvað mest á árunum 2004-2007, en meðalmánaðarveltan er nú svipuð því sem hún var að jafnaði á árunum 1998-2004.

Frá því að ríkið tók yfir starfsemi viðskiptabanka í október s.l. hafa þeir nær alveg hætt viðskiptum sín í milli með krónur og eiga þau heldur beint við Seðlabankann, bæði til að leggja inn fjármuni á innistæðureikninga og vegna endurhverfra verðbréfaviðskipta. Á myndinni sést að frá því í mars hafa millibankavextir til einnar nætur á innlánum og útlánum (REIBOR/REIBID) fylgt þeim vöxtum sem greiddir eru af viðskiptareikningum lánastofnana í Seðlabanka.

„Fyrir hrun bankakerfisins höfðu millibankavextir á innlánum hins vegar dansað í kringum stýrivexti Seðlabankans sem hafa að jafnaði verið hærri en vextir á innistæðureikningum," segir í Hagsjánni.

Sem kunnugt er tóku í febrúar gildi ný lög þar sem kveðið er á um að peningastefnunefnd taki ákvarðanir um beitingu á stjórntækjum Seðlabanka Íslands, en undir þann lið falla allar vaxtaákvarðanir.

Í þeim fundargerðum peningastefnunefndar sem birtar hafa verið hefur ekki verið mörkuð sérstök stefna um innlánsvexti Seðlabankans, utan þess að við vaxtaákvörðun 7. maí sl. töldu nefndarmenn mikilvægt að lækkun stýrivaxta um 2,5% yrði fylgt eftir með enn meiri lækkun innlánsvaxta.

Þeir voru þá lækkaðir um 3% og hafa staðið í stað síðan. Stýrivextir voru sem kunnugt er lækkaðir um 1% til viðbótar í júní og því minnkaði bilið milli stýri- og innlánsvaxta eins og áður segir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×