Viðskipti innlent

Höfundur Freakonomics veitir íslenskum bönkum aflausn

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Kápa bókarinnar Freakonomics.
Kápa bókarinnar Freakonomics.

Steven Levitt, höfundur dægurhagfræðibókarinnar Freakonomics, kemur inn á íslenska bankahrunið í hagfræðidálki sínum í New York Times. Hann segir íslensku bankana enga sök bera á eigin falli.

Þar fjallar hann um líkindin milli áhlaups á banka í íslenska tölvuleiknum EVE Online, sem Vísir hefur áður fjallað um, og áhlaupsins á íslensku bankana.

Í leiknum sveik einn spilarinn mikið fé úr banka svo traust á bankakerfinu brast. Innistæðueigendur hófu að taka út fé sitt í hrönnum í kjölfarið.

„Það er ákveðin kaldhæðni í bankakreppunni í EVE Online; fyrirtækið sem rekur tölvuleikinn er íslenskt," segir í dálknum.

„Íslensku bankarnir voru meðal verstu fórnarlamba efnahagshrunsins, án þess að bera neina sök á því sjálfir, að því ég fæ best séð. Öfugt við bandarísku bankana, sem hrundu vegna undirmálslána, urðu íslensku bankarnir fyrir gamaldags áhlaupi," segir ennfremur í grein Levitt.

Hann bætir svo við að vegna þess hversu stórir bankarnir voru hafi íslenska ríkið ekki getað ábyrgst rekstur þeirra og því hafi ekkert getað stöðvað áhlaupið þegar það hófst.

Grein Levitt má sjá hér.








Tengdar fréttir

Rændi tölvubanka fyrir sjúkrareikningum sonarins

Ebank bankinn í íslenska tölvuleiknum EVE Online hefur vakið mikla athygli á heimsvísu síðastliðinn mánuð. Ástæðan er sú að spilarinn Ricdic, sem var hátt settur í bankanum, stakk af með innistæður annarra leikmanna og seldi þær á svörtum markaði fyrir alvöru peninga. Grein um málið birtist meðal annars í vefútgáfu New York Times og víðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×