Viðskipti innlent

Vonar að fyrrum eigendur bankanna séu á brott

„Nöfnin verða áfram en fólkið sem áður stóð á bakvið þá er farið. Það vonum við allavega innilega," segir Harald Magnus Andreassen aðalhagfræðingur First Securities í Noregi í samtali við vefsíðuna e24.no þar sem hann ræðir um endurfjármögnun íslensku bankanna.

Vefsíðan ræðir einnig við Pål Ringholm lánasérfræðing hjá First Securities um málið sem segir að engin hætta sé á því í næstu framtíð að íslensku bankarnir leggist aftur í víking svipað og gerðist fyrir nokkrum árum.

„Ég sé ekki fyrir mér að þessir bankar verði áhættusæknir á alþjóðlegum vettvangi," segir Ringholm. „En landið þarf á starfhæfu bankakerfi að halda fyrir þjóð sína."

Aðspurður hvort hægt sé að endurvekja traust á íslensku bönkunum að nýju eftir það sem á undan er gengið eru segir Ringholm um að svo geti vel verið. „Starfshættir gömlu bankanna fóru með þeim í gröfina. Bankakreppur í öðrum löndum hafa sýnt að traustið á bankakerfið kemur aftur til baka," segir Ringholm.

Andreassen er sammála Ringholm um að útrásarvíkingarnir íslensku heyri sögunni til. Íslendingar muni eiga fullt í fangi næstu árin að byggja upp bankakerfi sitt innanlands eins og veruleg þörf er fyrir að gerist.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×