Viðskipti innlent

Kaupmáttur launa ekki verið minni síðan 2002

Á sama tíma og launahækkanir hafa verið hóflegar hefur verðbólgan geisað, sem gerir það að verkum að kaupmáttur launa hefur minnkað hratt og hefur nú ekki verið lægri hér á landi síðan í árslok 2002.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa dregist saman um 8,2% og frá því að kaupmáttur launa náði hámarki í ársbyrjun síðasta árs hefur hann minnkað um 11,6%.

Greiningin segir að reikni megi með að launahækkanir verði enn hóflegar á næstu mánuðum. Þær launahækkanir sem samið var um í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins komu til framkvæmda um síðustu mánaðamót og mun áhrifa þeirra því gæta á launavísitölu júlímánaðar.

Þeir samningar sem náðust þá munu vera til hliðsjónar í öðrum kjarasamningum sem ganga þarf frá á næstu misserum og því má reikna með að öll kjarasamningsgerð verði enn um sinn með hóflegu sniði enda aðstæður á vinnumarkaði enn afar erfiðar. Skráð atvinnuleysi mælist nú 8,1%, og reikna má með að það aukist enn með haustinu og nái svo hámarki í byrjun næsta árs í kringum 10%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×