Viðskipti innlent

Kauphöllin áminnir og sektar fimm félög

Kauphöllin hefur í dag veitt fimm félögum opinberlega áminningu og sektað hvert þeirra um 1,5 milljónir kr. vegna þess að félögin birtu ekki ársreikninga sína fyrir 30. apríl .sl. Öll félögin beittu fyrir sig undanþáguákvæði til að komast hjá birtingu ársreikninga sinna.

Félögin sem hér um ræðir eru Landic Property, Exista, Egla, Stoðir og Nýsir. Þau eru áminnt opinberlega og beitt févíti vegna atvika þar sem útgefandi er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Í niðurstöðu kauphallarinnar segir að þessir útgefendur hafi ákveðið að nýta sér undanþáguheimild í laga um verðbréfaviðskipti og varðar undanþágu frá birtingu fjárhagsupplýsinga.

Þrátt fyrir að útgefandi hafi notfært sér undanþáguákvæðið í lögunum hvílir engu að síður upplýsingaskylda á honum samkvæmt öðrum ákvæðum laganna um verðbréfaviðskipti.

Útgefandi verður ávallt að gæta reglna um birtingu innherjaupplýsinga og samsvarandi ákvæða í reglum Kauphallarinnar fyrir útgefendur fjármálagerninga.

Telja verður að fjárhagsupplýsingar útgefanda séu meðal mikilvægustu upplýsinga um útgefanda fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, sem útgefanda er skylt að birta opinberlega.

Engu skiptir þótt útgefandi hafi notfært sér áðurnefnda undanþágu, skylda hans til að birta innherjaupplýsingar er rík og fellur ekki niður þótt undanþágunni sé beitt, þrátt fyrir að útgefandinn sé í greiðsluerfiðleikum.

Útgefandi verður einnig að hafa í huga að ársreikningur getur innihaldið innherjaupplýsingar sem rétt er að birta opinberlega lögum samkvæmt þótt útgefandanum sé ekki skylt að birta sjálfan ársreikninginn opinberlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×