Viðskipti innlent

Íslandsbanki ekki með beina eignaraðild að GGE

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um málefni Geysis Green Energy (GGE) og aðkomu Íslandsbanka að félaginu skal áréttað að ekki er um að ræða beina eignaraðild Íslandsbanka að Geysi Green Energy.

Í tilkynningu segir að fagfjárfestasjóðurinn Glacier Renewable Energy Fund á um 40% hlut í fyrirtækinu og tvo fulltrúa af sjö í stjórn fyrirtækisins. Íslandsbanki á innan við helmingshlut í sjóðnum á móti öðrum fagfjárfestum.

Umræddur eignarhlutur var í eigu Glitnis og fluttist með öðrum innlendum eignum til Íslandsbanka í samræmi við neyðarlög sem sett voru í október 2008.

Þá skal einnig áréttað að hjá Íslandsbanka gilda afar strangar hæfisreglur um aðkomu starfsmanna og stjórnenda að einstaka málum sem bankinn fylgir í einu og öllu. Aðdróttanir um annað eru úr lausu lofti gripnar. Þá skal einnig áréttað starfsmenn Íslandsbanka hafa að sjálfsögðu haldið bankastjórn bankans upplýstri um aðkomu hans að málefnum Geysis Green Energy.

Íslandsbanki er viðskiptabanki Geysis Green Energy og vinnur náið með stjórnendum fyrirtækisins að fjárhagslegri endurskipulagningu þess en getur, eðli málsins samkvæmt, ekki tjáð sig að öðru leyti um málefni fyrirtækisins fremur en annarra viðskiptavina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×