Viðskipti innlent

Vanskil hjá ÍLS nema nú um 38 milljörðum króna

Vanskil hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS) hafa aukist jafnt og þétt. Ef tekið er mið af heildarútlánum sjóðsins í lok árs 2008 eru um 38 milljarðar króna í vanskilum nú í maí.

Samkvæmt nýjum tölum frá Íbúðalánasjóði sem fréttastofa hefur undir höndum voru 5,6% af heildarútlánum í vanskilum nú í maí en hér er átt við þriggja mánaða vanskil.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu 680 milljörðum króna í lok árs 2008. Ef tekið er mið af þeirri tölu má sjá að íbúðalán að verðmæti 38 milljarðar króna eru í vanskilum hjá sjóðnum.

Í apríl voru því 5,1% af heildarútlánum í vanskilum. Til samanburðar má nefna að í maí 2008 var þetta hlutfall 1,8%.

Ef vanskil eru skoðuð út frá hlutfalli lántakenda í vanskilum má sjá aukningu á milli mánaða. Í janúar á þessu ári voru 2,8% af lántakendum í vanskilum, en það hlutfall stendur nú í 4,1%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×