Viðskipti innlent

ESB samþykkir lán Lúxemborgar til Kaupþings

Framkvæmdanefnd Evrópusambandsins hefur samþykkt 320 milljón evra, eða tæplega 58 milljarða kr. lán stjórnvalda í Lúxemborg til Kaupþings. Þar með fá belgískir innistæðueigendur Edge-reikninga hjá útibúi Kaupþings í þar landi fé sitt endurgreitt.

Í frétt á Reuters um málið segir að láninu hafi verið ætlað að aðstoða við endurskipulagningu Kaupþings í Lúxemborg og til að endurgreiða Belgunum. Í þessu sambandi má nefna að belgísk stjórnvöld höfðu ákveðið að lána 160 milljónir evra til Kaupþings í Lúxemborg í sama tilgangi.

Þar með munu allir Belgar sem áttu fé inni á Edge reikningum Kaupþings í Lúxemborg og Belgíu fá það endurgreitt en um er að ræða um 15.000 manns.

„Aðstoðin við Kaupþing banka er ætluð til þess að allir innistæðueigendur fái sitt. Jafnframt mun þessi lausn auka á traust bankakerfisins án þess að skapa mismunun í samkeppni," segir Neelie Kroes hjá framkvæmdanefndinni í yfirlýsingu.

Kaupþing í Lúxemborg hefur verið tekið yfir af fjárfestingarsjóðnum Blackfish Capital. Hinsvegar var starfsemi Kaupþings í Belgíu seld til Keytrade Bank sem er í eigu Credit Agricole.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×