Viðskipti innlent

Byr og HR í samstarf um fjármálalæsi

Byr sparisjóður og Stofnun um fjármálalæsi við Háskólann í Reykjavík hafa gert með sér samstarfssamning sem miðar að því að efla fjármálalæsi Íslendinga. Byr verður aðalstyrktaraðili stofnunarinnar en á hennar vegum verða stundaðar rannsóknir og efnt til námskeiða sem miða að bættu fjármálalæsi þjóðarinnar.

„Hér er um afar þýðingarmikið samstarf að ræða því stuðningur Byrs við þetta verkefni skiptir sköpum. Háskólinn í Reykjavík vill með rekstri Stofnunar um fjármálalæsi stuðla að því að fólk nái betri tökum á sínum fjármálum því með bættu fjármálalæsi hefur það tækifæri til að móta fjárhagslega framtíð sína út frá því efnahagsumhverfi sem það býr við," segir Þorlákur Karlsson, forseti viðskiptadeildar HR í tilkynningu um málið.

„Það er auðvitað hagur allra að fólk þekki fjármálaumhverfið og sé meðvitað um fjárhagslega heilsu sína. Við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum er þetta mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Við hjá Byr erum stolt og ánægð með að fá að taka þátt í þessu verkefni með Háskólanum í Reykjavík," segir Ragnar Z. Guðjónsson sparisjóðsstjóri.

Markmið Stofnunar um fjármálalæsi við HR eru m.a. þau að Íslendingar geti tekið upplýstar ákvarðanir er varða efnahagslega velferð sína og hugsað fyrir ólíkum þörfum eftir æviskeiðum. Að sögn Breka Karlssonar, forstöðumanns stofnunarinnar er starfsemin í mótun og undirbúningi. Í vor var m.a. efnt til nokkurra námskeiða fyrir viðskiptavini Byrs en með haustinu hefst starfsemin fyrir alvöru.

Á vef Byrs sparisjóðs, www.byr.is er að finna próf þar sem fólk getur metið fjárhagslega heilsu sína en prófið gefur raunsanna mynd af þekkingu viðkomandi á fjármálum. Prófið var samið sérstaklega fyrir Byr í samvinnu við Stofnun um fjármálalæsi við Háskólann í Reykjavík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×