Viðskipti innlent

Íslandsbanki og Landsbanki afskrifa um 3 milljarða vegna Árvakurs

Íslandsbanki og Landsbankinn munu afskrifa um þrjá milljarða króna af skuldum útgáfufélags Morgunblaðsins. Heildarskuldir félagsins við ríkisbankana tvo eru tæpir fimm milljarðar.

Félag í eigu Óskars Magnússonar og fleiri aðila, hefur gengið frá samkomulagi við Íslandsbanka um kaup á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Heimildir fréttastofu herma að kaupverð sé 2 milljarðar króna. Samkvæmt gögnum sem fréttastofa hefur undir höndum nema skuldir Árvakurs við Íslandsbanka og Nýja Landsbankann samtals rúmum 4,6 milljörðum króna, og eru afskriftir ríkisbankanna tveggja því tæpir 3 milljarðar.

Skuld Árvakurs við Íslandsbanka nemur 3,7 milljörðum króna og skuldin við Nýja Landsbanka er rúmar 860 milljónir. Kaupverð er talið um 2 milljarðar króna en af því eru 300 milljónir vegna nauðsynlegrar hlutafjáraukningar. Eftir standa 1,7 milljarðar króna sem fást þá upp í skuldir við ríkisbankana en það þýðir að afskriftir nema samtals 2,9 milljörðum.

Þegar leitað var til Nýja Landsbankans vegna málsins fengust þau svör að vegna bankaleyndar gæti bankinn ekki gefið upplýsingar um Árvakur.

Þess má geta að Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrum stjórnarformaður Glitnis, er meðal hluthafa í Þórsmörk ehf., nýja eiganda Morgunblaðsins. Árvakur er fyrsta félagið sem hefur verið selt út úr bönkunum eftir að þeir voru þjóðnýttir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×