Viðskipti innlent

Seðlabankinn hleypir nýju vefriti af stokkunum

Ásgeir Daníelsson hagfræðingur ríður á vaðið í nýju vefriti Seðlabanka Íslands Efnahagsmálum. Birtingu höfundamerktra greina í Peningamálum hefur verið hætt en þær verða þess í stað birtar í vefritinu Efnahagsmálum jafnóðum og þær eru tilbúnar.

Grein Ásgeir ber heitið „Verðtrygging og peningastefna" en í henni er fjallað um það hvort sérkenni langtímalána hér á landi - verðtrygging, fastir vextir og jafngreiðslur - valdi því að virkni peningastefnunnar sé minni hér en í öðrum löndum. Rannsóknir erlendra hagfræðinga sýna að stýrivextir hafa oft lítil áhrif á langtímavexti sem oft ákvarðist meir af alþjóðlegum vöxtum. Þetta dregur úr áhrifamætti peningastefnunnar.

Ásgeir segir að ekki hefur verið sýnt fram á að áhrif stýrivaxtanna á langtímavexti séu minni hér en í öðrum löndum eða að verðtrygging skipti máli í þessu sambandi. Fastir vextir hafa annars konar áhrif á framboð og eftirspurn eftir lánum en breytilegir vextir. Þessi munur gæti skipt máli fyrir virkni peningastefnunnar ef stýrivöxtum er beitt þannig að raunvextir hækka þegar verðbólga vex. Mikill munur er á dreifingu endurgreiðslna og eignamyndun eftir því hvort lán eru verðtryggð jafngreiðslulán eða nafnvaxtalán með jöfnum afborgunum.

Í niðurstöðum sínum segir Ásgeir að í mörgum löndum glíma seðlabankar við þann vanda að peningastefnan hefur lítil áhrif á langtímavexti. Ekki hefur verið bent á trúverðugar ástæður fyrir því að verðtrygging auki þennan vanda.

„Ef verðbólguhorfur eru mjög óvissar er verðtrygging forsenda fyrir framboði langtímalána. Við slíkar aðstæður skiptir verðtrygging oft miklu fyrir skilvirkni fjármagnsmarkaða og ætti að auka virkni peningastefnunnar og vinna gegn verðbólgu.

Mikill munur er á áhrifum fastra vaxta og breytilegra vaxta á eftirspurn eftir lánsfé. Ef peningastefnan hefur áhrif á fasta raunvexti til langs tíma ætti hún að hafa meiri áhrif á eftirspurn eftir lánsfé heldur en samsvarandi hækkun raunvaxta af langtímalánum með breytilegum vöxtum. Hækkun breytilegra vaxta umfram verðbólgu hækkar hins vegar greiðslubyrði af slíkum lánum umfram greiðslubyrði af verðtryggðum lánum með fasta vexti og dregur úr eftirspurn eftir öðrum vörum einkum ef aðgengi fólks að fjármagni er takmarkað.

Verðtrygging og jafngreiðslufyrirkomulag jafna endurgreiðslubyrðina yfir tíma. Jafnari greiðslubyrði er oftast hagkvæm fyrir lántaka og lánveitendur, einkum ef mikil óvissa er um verðbólgu og þar með dreifingu greiðslubyrðarinnar eins og alla jafna er þegar verðbólga er nokkur. Hins vegar leiðir af jafnari dreifingu greiðslubyrðarinnar að ný útlán verða lægra hlutfall af útistandandi lánum á hverju tímabili. Hrein eignamyndun verður einnig hægari. Ef peningastefnan virkar með því að hafa áhrif á framboð á nýjum lánum er svigrúm hennar þó nokkru meira í ríkjum þar sem langtímalán bera nafnvexti og afborganir eru jafnar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×