Viðskipti innlent

Hækkun á evrópskum hlutabréfamörkuðum

Miðlarar rýna í tölurnar á bandarískum hlutabréfamarkaði.
Miðlarar rýna í tölurnar á bandarískum hlutabréfamarkaði. Mynd/AP

Hlutabréfamarkaðir hafa tekið ágætlega við sér víða um heim á nýju ári í kjölfar afleitrar tíðar. Slíkt var fallið á bandarískum hlutabréfamörkuðum á síðasta ári, að annað eins hefur ekki sést síðan í kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar.

Breska ríkisútvarpið (BBC) hefur eftir miðlara hjá CMC Markets, að flestir myndu vilja sjá hækkun á fyrsta degi ársins. Það sé hins vegar óvíst þar sem viðskipti séu í lágmarki og hagvísar ekki jákvæðir.

Þessi fyrsti viðskiptadagur ársins hefur hins vegar verið jákvæður.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur hækkað um 0,57 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi um 1,33 prósent og Cac-40 vísitalan í Frakklandi um 1,09 prósent.

Þá er sömuleiðis ágæt hækkun á Norðurlöndunum. Mest er hækkunin í kauphöllinni í Helsinki í Finnlandi, sem stendur í plús 3,15 prósentum, en minnst í Stokkhólmi. Þar hefur hlutabréfavísitalan hækkað um 1,92 prósent.

Hækkun var á asíumörkuðum í morgun auk þess sem bandaríski hlutabréfamarkaðurinn endaði í uppsveiflu á Gamlársdag.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×