Viðskipti innlent

Lánshæfiseinkunn Íslands á pari við mörg Austur-Evrópulönd

Lánshæfiseinkunnir Íslands sem um árabil voru fyrsta flokks og á pari með lánshæfiseinkunnum nágrannaríkja okkar í V-Evrópu hafa nú aldrei verið lægri. Núna erum við hinsvegar í sama flokki og nýmarkaðsríki A-Evrópu en mörg þeirra ramba nú á brún óviðunandi áhættu eftir að hafa horft upp á lánshæfiseinkunnir sínar hríðfalla samhliða því að fjármálakreppan hefur grafið sig dýpra.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að lánshæfismat ríkisjóðs hefur í kjölfar bankahrunsins hríðfallið og er nú aðeins einu skrefi frá því að vera í svokölluðum áhættuflokki eða ruslflokki í bókum bæði S&P og Fitch Ratings.

Þá er lánshæfiseinkun Íslands á neikvæðum horfum hjá öllum fjórum lánshæfismatsfyrirtækjunum sem meta lánshæfi ríkisjóðs en líkt og sagt var frá í Morgunkorni í síðustu viku myndi lækkun lánshæfismatsins niður í áhættuflokk gera róðurinn þyngri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnannir sem þurfa á alþjóðlegri fjármögnun að halda.

Líklega munu lánshæfisfyrirtækin endurskoða lánshæfi ríkisjóðs á næstu mánuðum en meira en hálft ár er nú liðið frá því að einkunnirnar voru settar á neikvæðar horfur og því fer að koma tíma á næstu endurskoðun.

Búlgaría, Króatía, Ungverjaland og Kasakstan eru öll með mjög svipaðar lánshæfiseinkunnir og Ísland um þessar mundir og eru einkunnir þeirra á neikvæðum horfum og bíða endurskoðunar.

Búlgaría hefur fallið niður í lægsta þrep B flokks hjá bæði Moody´s og Fitch vegna vaxandi áhættu á greiðslufalli og er á neikvæðum horfum hjá S&P. Króatía féll niður í BBB hjá S&P í vor vegna versnandi viðskiptahalla og lausafjárstöðu og skorts á aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við vandanum.

Ungverjaland og Kasakstan er líkt og Ísland aðeins einu stigi fyrir ofan áhættuflokk í bókum tveggja lánshæfismatsfyrirtækja og eru líkt og Ísland á neikvæðum horfum. Rússland er skörinni hærri en Ísland með einkunnina BBB í bókum S&P og Fitch en deilir flokki með Íslandi í bókum Moody´s og er með einkunnina Baa1.

Nokkur nýmarkaðsríki eru þegar fallinn niður fyrir mörk viðunandi áhættu og komin í flokk svokallaðra áhættubréfa eða ruslbréfa. Georgía, Moldova, Svartfjallaland og Tyrkland eru í þessum hópi sem og Serbía, Lettland og Úkraína sem hafa líkt og Ísland þegið aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að komast upp úr kreppunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×