Viðskipti innlent

Moody´s segir óvissu um getu stjórnvalda til að styðja OR

Lánsmatsfyrirtækið Moody´s segir í áliti sínu um nýtt lánshæfismat sitt á Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að lækkunin á matinu niður í rusl-flokk sé meðal annars vegna óvissu um hvort stjórnvöld geti staðið við bakið á fyrirtækinu.

Höfuðástæðan fyrir lækkuninni er, eins og fram kemur í tilkynningu OR til kauphallarinnar, að lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins var lækkuð. Breytt einkunn hefur engin áhrif á kjör gildandi lánasamninga Orkuveitu Reykjavíkur.

Með stjórnvöldum á Moody´s hér við Reykjavíkurborg enda tekið fram í álitinu að borgin eigi 93,5% í OR. Moody´s segir auk framangreinds að einkunnin endurspegli þar að auki að ekki er til staðar bein ábyrgð stjórnvalda til handa OR. Hér má geta til samanburðar að ríkisstjórnin gaf fyrr í ár út yfirlýsingu um að hún myndi leggja Landsvirkjun til 300 milljónir dollara ef fyrirtækið þyrfti á slíku fé að halda aukalega.

Í áliti Moody´s um OR segir að matið byggi á..."þeirri staðreynd að fari svo að stórar og mótsagnakenndar kröfur verði gerðar á hendur stjórnvalda gæti stuðningur (við OR) ekki ætíð verið til staðar."

Fram kemur að veiking krónunnar hafi leitt til vaxandi skuldabyrðar hjá OR en fyrirtækið er að mestu fjármagnað í erlendri mynt. Á móti eru tekjur OR í augnablikinu að mestu í íslenskum krónum. Þetta hefur leitt til veikingar á fjárhagsstöðu fyrirtækisins sem var ekki beysin fyrir.

Það jákvæða sem Moody´s sér er að OR er fjármagnað út árið 2010 og að líklegt sé að OR nái að ljúka framkvæmdum á Hellisheiði. Þetta myndi hafa það að verkum að orkusalan þaðan til nýs álvers myndi auka tekjur OR í dollurum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×