Viðskipti innlent

Gerir ekki ráð fyrir lækkun stýrivaxta í júlí

„Nokkuð ljóst er því hvert stefnir með næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar sem verður mjög hófleg ef einver," segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem m.a. er rætt um fundargerð peningastefnunefndar sem birt var á heimasíðu Seðlabankans í gær.

Greiningin segir að niðurstaða peningastefnunefndarinnar og áhersla á hóflega lækkun stýrivaxta eða jafnvel óbreytta vexti gefur vísbendingu um það sem koma skal á næsta vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans sem er þann 2. júlí næstkomandi.

Peningastefnunefndin leggur áherslu á gengisstöðugleika og frá síðustu vaxtaákvörðun er gengi krónunnar búið að lækka um 3,5%. Þá er stefnan sett á að afnám hafta geti hafist seint á þessu ári og er það vilji bankans að fara með vexti háa inní það ferli.

Í fundargerðinni kemur fram að Seðlabankastjóri hafi í aðdragandi vaxtaákvörðunarinnar haldið fundi með bæði aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrisjóðsins. Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins létu í maí mánuði opinberlega í ljós þá skoðun að ekki væru til staðar forsendur fyrir frekari lækkun stýrivaxta og að það væri beinlínis áhættusamt fyrir gengisstöðugleika að lækka vexti enn frekar.

Töluvert annað hljóð hefur vaflaust verið í strokknum á fundinum með fulltrúum vinnumarkaðarins sem hafa ítrekað lagt til að vextir verði lækkaðir umtalsvert. Ljóst er af niðurstöðunni að ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa fallið í töluvert frjórri jarðveg og að peningastefnunefndin hafi keypt rök AGS fyrir óbreyttum vöxtum en þau rök snúa aðallega að mikilvægi þess að raska ekki stöðugleika krónunnar við núverandi aðstæður í hagkerfinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×