Innlent

Viðamikil mál og flókin segir FME

gögnin skoðuð Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Svein Harald Øygard, fyrrum seðlabankastjóri, á fundi í júlíbyrjun. Fréttablaðið/Stefán
gögnin skoðuð Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Svein Harald Øygard, fyrrum seðlabankastjóri, á fundi í júlíbyrjun. Fréttablaðið/Stefán

Ekki hefur enn tekist að ljúka neinu þeirra mála sem rannsökuð hafa verið vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum.

Lögin voru sett í nóvember í fyrra í kjölfar bankahrunsins. Í sumarbyrjun hafði Seðlabankinn vísað átta málum til Fjármálaeftirlitsins (FME) til rannsóknar. Eftir að Seðlabankinn herti á reglum um gjaldeyrisviðskipti og jók eftirlit hefur málum hins vegar fjölgað og nema þau nú tugum.

Í svari við fyrirspurn blaðsins kemur fram að FME og Seðlabanki Íslands „starfi náið við rannsókn meintra brota gegn lögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra“ og að gerður hafi verið sérstakur samstarfssamningur á milli stofnananna varðandi slíkar rannsóknir. „Þau mál sem eru til rannsóknar eru viðamikil og flókin og eru rannsóknirnar komnar mislangt á veg,“ segir í svari FME.

Eftir rannsókn getur Fjármálaeftirlitið lokið málum með stjórnvaldssekt, með sátt eða með því að vísa þeim til lögreglu, eða til sérstaks saksóknara eftir atvikum.

Í gjaldeyrislögunum kemur fram að rúmur refsirammi sé vegna brota gegn þeim. Þannig geta sektir sem lagðar eru á einstaklinga numið frá 10 þúsund krónum til 20 milljóna króna. Sektir á lögaðila geta svo numið frá 50 þúsund krónum til 75 milljóna króna. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×