Viðskipti innlent

SI segir verktakastarfsemi landsins að blæða út

Samtök iðnaðarins (SI) segja í nýrri ályktun að verktakastarfsemi landsins sé að blæða úr. Niðurskurður í vegagerð sé reiðarslag. SI skora á ríkisstjórnina að taka ákvörðun sína um 12 milljarða niðurskurð til samgöngumála til endurmats.

Í ályktuninni segir að við núverandi aðstæður á alls ekki að hætta við allar framkvæmdir. Framkvæmdastigi á að halda í horfinu í lengstu lög. Samtök iðnaðarins telja brýnt að velja af kostgæfni verkefni sem eru mannaflsfrek og arðsöm og til þess fallin að auka samkeppnishæfni íslensk samfélags þegar fram í sækir. Þegar mest var störfuðu 16.000 manns í mannvirkjagerð.

Árum saman voru 10 til 12 þúsund manns starfandi í greininni. En nú stefnir fjöldinn í einungis 4.000. Niðurskurður er óumflýjanlegur í okkar þjóðfélagi eins og staðan er orðin, en óþolandi er að hann bitni allur á mannvirkjagreinum. Þeim byrðum verður að dreifa og þar á opinber rekstur síst að vera undanskilinn. Mikilvægt er að sú mikla aukning á samneyslu sem orðið hefur frá árinu 2001 gangi til baka og forgangsraðað verði upp á nýtt í ríkisrekstri...

Verktakastarfsemi hvers konar hefur orðið fyrir einna mestum búsifjum í kreppunni. Tölur um gjaldþrot fyrirtækja og gríðarlegt atvinnuleysi í greininni tala þar skýrustu máli. Það er því ótrúlegt að lesa fréttir um að Vegagerðin neyðist til að hætta við allar nýframkvæmdir vegna þess að ríkisstjórnin boðar niðurskurð upp á 3,5 milljarða á þessu ári og 8,2 milljarða á því næsta til vegagerðar.

Með þessu er verið að dæma fleiri fyrirtæki til gjaldþrots og enn fleira fólk til atvinnuleysis. Þúsundir manna hafa þegar misst vinnuna undanfarna mánuði hjá fyrirtækjum eins og Ístak, ÍAV, Loftorku, Hlaðbæ-Colas, Klæðningu, Hektar, Háfelli, Ásberg, Nesprýði, - öll þessi fyrirtæki þurfa skýr svör fyrir 1. júlí um verkefnin framundan. Fyrir þann dag þarf að taka ákvörðun um hvort segja þurfi upp mörg hundruð starfsmönnum til viðbótar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×