Fastir pennar

Sáttin er brostin

Þorvaldur Gylfason skrifar

Til eru tvær leiðir til áhrifa í þjóðmálum. Jón forseti fór fyrst aðra, síðan báðar í senn, með misjöfnum árangri. Önnur leiðin er að taka sér stöðu utan virkisveggjanna og reyna með þrotlausu nuddi að þoka málum áleiðis með því að skrifa greinar í blöð heima fyrir og stundum einnig erlendis. Hin leiðin er að hella sér út í pólitík.

Óvíst virðist, hvor leiðin er yfirleitt vænlegri til árangurs til langs tíma litið, velji menn aðra hvora. Jafnvel góðir stjórnmálamenn gera oft ekki annað en að framkvæma þær hugmyndir, sem fyrir þá eru lagðar, iðulega útþynntar með málamiðlunum og of seint. Sjaldgæft er, að stjórnmálamenn eigi sjálfir hugmyndirnar, sem þeir leiða í lög eða framkvæma, en þess eru þó ýmis eftirminnileg dæmi svo sem hugsjónin um friðsamleg mótmæli, sem Mahatma Gandí leiddi um sína daga til fullnaðarsigurs gegn yfirráðum Breta á Indlandi.

Það var blaðamaðurinn og fræðimaðurinn Jón Sigurðsson, ekki stjórnmálamaðurinn, sem á sinni tíð tryggði Íslandi frjálsa verzlun við útlönd. Það tók hann tólf ár, frá 1843, þegar hann byrjaði að skrifa um málið, til 1855, þegar skipan verzlunarinnar var breytt. Það þurfti með líku lagi þrotlaust nudd (Jón forseti notaði orðið nudd um eigin málflutning) um langt árabil til að fá Sjálfstæðisflokkinn til að ljá máls á inngöngu Íslands í Evrópusambandið, og flokkurinn notaði umþóttunartímann til að keyra Ísland í kaf, og trúlega einnig sjálfan sig. Það tók sama flokk heilan mannsaldur að leiða veiðigjald í lög og þá svo þunna blöndu, að hún hefur í rauninni engu breytt.Hingað og ekki lengra

Við, sem höfum látið okkur duga að skrifa greinar í blöð heima fyrir og stundum einnig erlendis, höfum flest fylgt einni reglu út í æsar. Þótt við segjum stjórnvöldum góðfúslega til syndanna hér heima og reynum að draga sem fæst undan, hegðum við okkur jafnan gagnvart útlendingum eins og erindrekar Íslands og drögum þá ýmislegt undan, svo að hvergi falli blettur á Ísland. Við erum fjölskylda.

Þótt okkur hafi mörgum lengi þótt, að hér standi varla steinn yfir steini hvorki á vettvangi stjórnmálanna né í réttarkerfinu, sem er skilgetið afkvæmi stjórnmálastéttarinnar, höfum við aldrei tekið svo djúpt í árinni, þegar við tölum við útlendinga. Við höfum í reyndinni hegðað okkur út á við eins og meðvirkir makar í hjónabandi við drykkjusjúkling. Eins og margir vita, reynast drykkjusjúklingar sjaldan verðir slíkrar þolinmæði, nema þeir taki sig á, og þar að kemur, að makarnir segja: hingað og ekki lengra. Við, sem fjöllum um Ísland í ræðu og riti erlendis og ekki aðeins hér heima, þurfum nú að gera upp við okkur, hvort rétt sé og forsvaranlegt að halda tryggð við gömlu regluna, úr því að stjórnvöld sýna enn sem komið er engin áþreifanleg merki um iðrun, skilning eða yfirbót. Er þá ekki kominn tími til að söðla um? - og segja útlendingum refjalausan sannleikann um það, sem hér hefur verið og er enn að gerast?

Hvað finnst þér? Spurningin varðar samvizku hvers og eins, heiður Íslands, líf og sóma.

Engin undanbrögð

Þegar allt virtist leika í lyndi, höfðu útlendingar engan sérstakan áhuga á íslenzkum innanlandsmálum. Nú er staðan gerbreytt. Neyðin steypist nú grimm og köld yfir íslenzk heimili og fyrirtæki, sem fæst sleppa undan krumlunni. Tugþúsundir erlendra sparifjáreigenda hafa tapað geipifé á viðskiptum við íslenzka banka. Minningin um óðaverðbólgu áranna milli stríða lifir enn í þýzkum fjölskyldum, svo að Þjóðverjar hafa megna óbeit á fjármálaóreiðu. Þeir hefðu vísast við eðlilegar aðstæður lagt kapp á að tryggja Íslandi aðgang að Evrópusambandinu við vildarkjörum, en nú er velvild þeirra í uppnámi.

Fórnarlömb bankanna utan lands og innan vilja nú fá að vita, hvernig allt var í pottinn búið. Þau vilja fá að vita, hvers vegna stjórnvöld leyfðu bönkunum að vaxa landinu yfir höfuð á örfáum árum og skilja eftir sig sviðna jörð. Þau vilja fá að vita, hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki enn fengizt til að fela útlendingum rannsókn bankahrunsins. Þau vilja vita, hvort skilanefndir bankanna hafa selt eignir út úr bönkunum á gráu svæði milli greiðslustöðvunar og gjaldþrots. Þau vilja fá að vita, hvort þrálátur orðrómur um, að bankarnir hafi einn eða fleiri stundað fjárböðun fyrir rússneska auðkýfinga, á við rök að styðjast. Það yrði varla til að auka hróður Íslands í útlöndum, ef íslenzkir blaðamenn héldu áfram að leiða málið hjá sér og létu erlendum blaðamönnum einum eftir að draga fram sannleikann.

Eitt er víst: erlendir blaðamenn munu halda áfram að fletta ofan af bankahruninu, aðdraganda þess og úrvinnslu, að kröfu erlendra lesenda. Íslendingar mega ekki láta sitt eftir liggja, hvorki blaðamenn né aðrir. Ærinn er samt sæmdarmissirinn.


×