Viðskipti innlent

Bakkabræður skulduðu mest í Kaupþingi

Eigendur Kaupþings voru jafnframt stærstu skuldarar bankans samkvæmt lánabók hans frá árinu 2006. DV birtir í dag yfirlit yfir stærstu skuldarana.

Fram kemur að af fjórtán stærstu skuldurum Kaupþings voru að minnsta kosti fimm þeirra meðal stærstu eigenda bankans. Af þeim voru Bakkabræður, Lýður og Ágúst Guðmundssynir meirihlutaeigendur í fjórum af fimm skuldugustu félögunum.

Stærsti einstaki skuldari bankans var Baugur með 48 milljarða kr. skuld en næsta á eftir komu tvö félög í eigu Bakkabræðra, Síminn með skuld upp á 32 milljarða kr. og VÍS með skuld upp á 31 milljarða kr. Samtals námu lánveitingar Kaupþings til fyrrgreindra fjögurra félaga í meirihlutaeigu Bakkabræðra yfir 120 milljörðrum kr.

Eignarhald Bakkabræðra á Kaupþingi var í gegnum Exista sem var stærsti eigandi bankans með 21%. Næststærsti eigandinn var Egla, félag Ólafs Ólafssonar, sem jafnframt var 14. stærsti skuldari bankans með skuld upp á 12,5 milljarða kr.

Í DV er leitað álits Vilhjálms Bjarnasonar lektors í Háskóla Íslands og formanns félags fjárfesta á þessari skuldastöðu. Vilhjálmur vitnar í orð Williams Black sem sagði eitt sinn: „Besta leiðin til að ræna banka er að eiga hann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×