Viðskipti innlent

Skólabróðir Geirs Haarde verður fulltrúi AGS á Íslandi

Fréttastofa hefur fengið það staðfest að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins(AGS) á Íslandi verður Franek Rozwadowski. Hann mun vera skólabróðir Geirs Haarde fyrrum forsætisráðherra frá því er báðir stunduðu nám við Brandeis háskólann.

Páll Ásgeir Ásgeirsson fjallar um Franek Rozwadowski á bloggsíðu sinni. Þar kemur fram að hann er hagfræðingur að mennt og hefur unnið ýmis trúnaðarstörf fyrir AGS víða um heim á undanförnum árum.

„Mig langar til að bæta aðeins við þetta þeim upplýsingum að téður sérfræðingur er gamall skólabróðir og stórvinur Geirs Haarde frá Brandeis University en þar tók Geir BA gráðu sína í hagfræði sem Wien styrkþegi. Þeim Geir og Franek varð vel til vina svo og Hjálmari H. Ragnar rektor LHÍ sem var við nám í Brandeis á sínum tíma," segir Páll Ásgeir.

Rozwadowski hefur m.a. starfað við verkefni fyrir AGS í Eistlandi og Makedóníu á undanförnum árum.

„Mér finnst krúttlegt að það skuli endilega hittast svo á að nýi landstjórinn sé gamall drykkjubróðir og frater Geirs," segir Páll Ásgeir. „ Þetta fellur svo skemmtilega inn í hina rammíslensku hefð að alltaf skuli ráða í góðar stöður frændur, vini eða skólabræður og best er ef þetta getur allt verið sami maðurinn. Geir hefur áreiðanlega séð fyrir sér að geta rölt yfir til Franek á næstu skrifstofu í ráðuneytinu og rifjað upp gamla daga milli þess sem þeir félagarnir streittust við að bjarga landinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×